Funda með Samkaup á mánudaginn

Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hafa komið sér saman um að funda á mánudaginn um verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík og á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum en Samkaup rekur þrjár verslanir á svæðinu. Eins og fram hefur komið hefur verið megn óánægja meðal viðskiptavina með Nettóbúðina á Húsavík. Málið var tekið upp á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sem haldinn var í janúar. Þar var skorað á forsvarsmenn félagsins að beita sér í málinu, það er að Samkaup taki sig á og komi til móts við viðskiptavini með betri og hagkvæmari verslun. Málið var einnig til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gærkvöldi. Aðilar, það er Samkaup og Framsýn, hafa þegar haldið einn símafund um málið en munu hittast á formlegum fundi á mánudaginn til að ræða málið frekar. Fyrir liggur að Framsýn mun þrýsta á Samkaup að gera betur í verslunarrekstri á Húsavík og sem fyrst verði hafist handa við að byggja upp nýja verslun með góðu aðgengi fyrir viðskiptavini og vöruverði eins og best gerist í stórmörkuðum á Íslandi.

Deila á