Framsýn fundar með Samkaup

Framsýn hefur komið á framfæri við Samkaup óánægju heimamanna með þjónustu fyrirtækisins á Húsavík, sérstaklega hvað varðar verslunina Nettó. Krafist er úrbóta þegar í stað. Á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á dögunum urðu miklar umræður meðal fundarmanna um stöðuna varðandi matvöruverslanir á Húsavík. Skorað var á forsvarsmenn Framsýnar að beita sér í málinu, þar sem staðan væri óviðunandi með öllu. Rétt er að taka skýrt fram að gagnrýnin beinist ekki gagnvart starfsfólki Nettó.

Í kjölfar aðalfundar deildarinnar átti formaður Framsýnar símafund með forstjóra Samkaupa um málið þar sem óánægju heimamanna var komið á framfæri um leið og skorað var á fyrirtækið að taka ábendingum heimamanna alvarlega. Fundurinn var vinsamlegur enda fara hagsmunir beggja aðila saman, það er að efla starfsemi Samkaupa á svæðinu ekki síst í ljósi þess að aðrar verslunarkeðjur hafa ekki sýnt því áhuga að koma inn á svæðið og hefja verslunarrekstur.  Niðurstaða samtalsins var að heyrast aftur um miðjan febrúar.

Heimamenn kalla þegar í stað eftir úrbótum í verslunarrekstri Samkaupa á Húsavík. Kallað er eftir stærri og og öflugri matvörubúð með góðu aðgengi. Þess er vænst að áform Samkaupa um að byggja upp nýtt verslunarhúsnæði verði að veruleika á allra næstu árum. Framsýn hefur þrýst á það í viðræðum við forsvarsmenn Samkaupa.

Deila á