Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hafa borist ábendingar, ekki síst frá fjölskyldufólki á Húsavík sem kvartar mjög yfir hækkunum Norðurþings á gjaldskrám sveitarfélagsins um síðustu áramót, hækkanirnar nemi í einhverjum tilfellum tugum prósenta. Gögn sem staðfesta það hafa verið lögð fram. Framsýn hafði áður skorað á sveitarfélögin á félagssvæðinu líkt og fjölmörg önnur stéttarfélög hafa gert víða um land, það er að skora almennt á sveitarfélög í landinu að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf. Því miður hefur það ekki gengið eftir. Eins og kunnugt er standa yfir kjaraviðræður um þessar mundir milli aðila vinnumarkaðarins. Mörg sveitarfélög hafa gefið út að þau muni ekki skorast undan ábyrgð og lækka sínar gjaldskrár enda verði samið með ábyrgum hætti í yfirstandandi kjaraviðræðum. Stéttarfélögin munu standa vaktina áfram og fylgast með gjaldskrárhækkunum sveitarfélaga enda vega þær mjög hátt í heimilisbókhaldinu, ekki síst hjá barnafólki.