Greitt úr Félagsmannasjóði til starfsmanna sveitarfélaga innan Framsýnar

Í kjarasamningi aðildarfélaga SGS og Sambands ísl. sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn var samið um að sveitarfélögin greiddu 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í svokallaðan Félagsmannasjóð. Hvað félagsmenn Framsýnar varðar, þá er sjóðurinn vistaður hjá Framsýn.

Kveðið er á um að standa skuli skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Greitt er úr sjóðnum árlega, það er 1. febrúar. Á næstu dögum munu því berast greiðslur úr Félagsmannasjóðnum til félagsmanna sem starfa hjá Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra.

Rétt er að geta þess að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem mun berast félagsmönnum í lok næstu viku, það er eftir 1. febrúar. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.

Í heildina munu 498 félagsmenn innan sveitarfélaga fá greiddar um 26 milljónir úr Félagsmannasjóðnum. Starfsmenn sveitarfélaga sem telja sig eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum, en hafa ekki fengið greiðslur, eru þeir vinsamlegast beðnir um að snúa sér til Skrifstofu stéttarfélaganna.

Deila á