Ágæti sjómaður, ert þú á lausu?

Vonandi er þetta mjög grípandi fyrirsögn. Þannig er að Sjómannasamband Íslands hefur boðað til fundar um kjaramál og yfirstandandi kjaraviðræður við SFS í Reykjavík næstkomandi þriðjudag. Sjómannadeild Framsýnar á aðild að samningnum. Félagið hefur áhuga á því að senda tvo til þrjá starfandi sjómenn innan félagsins á fundinn enda um að ræða mjög mikilvægan fund um kjaramál en til fróðleiks má geta þess að sjómenn hafa verið samningslausir frá árslokum 2019.

Formaður deildarinnar mun að sjálfsögðu fara á fundinn. Eðlilega er ekki auðvelt að fylgjast með því hvaða sjómenn innan Framsýnar eru á sjó á hverjum tíma eða í landi milli veiðiferða. Því er hér með skorað á þá sjómenn sem koma því við og hafa tíma til að fara með formanni Sjómannadeildar Framsýnar á fundinn að gefa sig fram við Skrifstofu stéttarfélaganna eða Jakob Gunnar Hjaltalín formann deildarinnar í síðasta lagi á mánudaginn. Koma svo sjómenn

Deila á