Hvatningarbréf til Framsýnar frá stjórn Félags eldri Mývetninga

Um leið og við þökkum yfirlýstan  stuðning Framsýnar við kjör eldri borgara sendum við hér eldri Mývetningar hvatningarbréf til félagsins:

„Stjórn Félags eldri Mývetninga hvetur til víðtækrar samstöðu um að ná niður verðbólgu og vöxtum.  Jafnframt hvetur stjórnin verkalýðsfélagið Framsýn til að tryggja  að eldra fólk verði ekki skilið eftir og því tryggðar verulegar kjarabætur í þeim viðræðum um kjör sem fram fara milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Einsýnt þykir að tómt mál sé að tala um þjóðarsátt eða breiðfylkingu á þeim vettvangi ef ekki á að taka tillit til löngu tímabærra úrbóta á kjörum eldra fólks en innan þessa hóps er að finna fátækustu aðila í samfélaginu sem oftar en ekki búa við algjört úrræðaleysi og verða að treysta á stuðning samfélagsins til daglegra þarfa.

Hér er vísað til stefnu LEB í kjaramálum þar sem þess er krafist að  almennt frítekjumark  verði hækkað og gripið til sértækra aðgerða til að bæta kjör þeirra verst settu. Áfram verði síðan unnið að lagfæringum og úrbótum.

Rétt er að minna á að langflest þeirra tugþúsunda eldra fólks sem um ræðir eru eldri félagsmenn  í stéttarfélögunum  sem lögðu grunninn að íslensku atvinnulífi og því þjóðfélagi sem við teljumst til í dag. Mikilvægt er að fulltrúar þeirra  eigi aðkomu að þeim viðræðum sem standa yfir við stjórnvöld.

Með baráttukveðjum!

Stjórn  Félags eldri Mývetninga“

Bréfið frá félögum okkar í Mývatnssveit var til umræðu í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar í kvöld og fékk það mjög góða umræðu. Innihaldi bréfsins hefur þegar verið komið á framfæri við Starfsgreinasamband Íslands sem fer með samningsumboð Framsýnar gagnvart ríkinu. Þá hefur Framsýn auk þess komið sínum ábendingum á framfæri við Starfsgreinasambandið hvað varðar málefni eldri félagsmanna. Áhersluatriðin sem voru unnin í samstarfi við Félag eldri borgara á Húsavík og nágrennis eru eftirfarandi:

  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að grunnlífeyrir frá TR verði sambærilegur lægsta taxta SGS.
  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að frítekjumark vegna lífeyristekna verði hækkað verulega en það hefur verið óbreytt til margra ára.
  • Framsýn telur afar óeðlilegt að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð falli niður við 70 ára aldur fólks á vinnumarkaði.
  • Framsýn kallar eftir leiðréttingum á framfærsluviðmiðum til að tryggja eldri borgurum mannsæmandi lífsviðurværi.
  • Framsýn telur eðlilegt að tekið verði tillit til þess við ákvörðun lífeyris að lífslíkur sjóðfélaga eru mismunandi. Horft verði til breytinga sem verið er að gera í Danmörku á almannatryggingakerfinu til að mæta misjöfnum lífslíkum.
  • Framsýn telur eðlilegt að séreign verði gerð skattfrjáls.
  • Framsýn krefst þess að ríkið jafni að fullu örorkubyrgði lífeyrissjóðanna.
Deila á