Líflegur aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær. Miklar og góðar umræður urðu um um stöðu sjómanna sem hafa verið samningslausir á fimmta ár. Ályktað var um málið. Þá urðu jafnframt umræður um skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2023. Stjórnin var endurkjörin nema hvað Sigdór Jósefsson kemur nýr inn í stjórn deildarinnar. Jakob Gunnar Hjaltalín var endurkjörin sem formaður félagsins og Börkur Kjartansson sem varaformaður. Aðrir í stjórn eru Gunnar Sævarsson og Héðinn Jónasson. Meðfylgjandi fréttinni eru myndir frá fundinum og  skýrsla stjórnar sem formaður deildarinnar fylgdi eftir.

„Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2024. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2023, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:

Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í rúmlega fjögur ár. Reyndar skrifuðu Sjómannafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) undir kjarasamning, um kaup og kjör sjómanna á fiskiskipum 13. febrúar 2023, það er eftir að samningaviðræður höfðu staðið yfir um nokkurt skeið. Í kjölfarið fór fram atkvæðagreiðsla um samninginn. Öll aðildarfélög innan Sjómanna-sambandsins felldu kjarasamninginn með afgerandi hætti. Deilan er því áfram inn á borði ríkissáttasemjara. Samningsaðilar hittast annað slagið hjá ríkissáttasemjara og eru í reglulegu sambandi til að leita lausnar í deilunni. Fyrirhugað er að kalla saman fulltrúa frá aðildarfélögum Sjómannasambandsins eftir áramótin til að fara yfir stöðuna og ákveða næstu skref, það er hverju er hægt að breyta í þeim samningi sem var felldur svo sjómenn geti vel við unað og samþykkt nýjan kjarasamning. Það er sjómanna að ákveða hvort þeir verða samningslausir næstu árin eða eru tilbúnir að ljúka málinu með undirskrift nýrra samninga með fáeinum breytingum frá fellda samningnum eða verkfallsaðgerðum.

Eins og fram kemur í skýrslunni er staðan í kjaramálunum mjög þung.  Sjómenn innan Sjómannadeildar Framsýnar kalla eftir viðhorfsbreytingum hjá útgerðarmönnum svo hægt verði að ganga frá viðunandi kjarasamningi fyrir sjómenn sem fyrst á árinu 2024. Látum það ekki gerast að sjómenn verði samningslausir eitt árið í viðbót. Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar mun fara í viðræður við Samtök atvinnulífsins í byrjun næsta árs hvað varðar sérkjarasamning félagsins fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar. Afar mikilvægt er að viðhalda samningnum þar sem fjöldi fólks starfar við hvalaskoðun frá Húsavík.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Aðalsteinn Steinþórsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum á vegum sambandsins.

Þing SSÍ:

33. þing Sjómannasambands Íslands var haldið dagana 9. og 10. nóvember 2023 að Grand Hóteli í Reykjavík. Helstu málefni þingsins auk hefðbundinna þingstarfa voru öryggismál sjómanna, atvinnu- og kjaramál. Jakob Gunnar Hjaltalín og Börkur Kjartansson voru fulltrúar Framsýnar á þinginu. Ályktanir þingsins eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar.

Sjómannadagurinn og heiðrun sjómanna:

Allt frá árinu 2010 hefur Sjómannadeild Framsýnar séð um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Heiðrun sjómanna féll niður árin 2020 og 2021 vegna Covid. Því miður kom ekki til þess að talin væri ástæða til að heiðra sjómenn sérstaklega á árinu 2023. Þar kemur til að Sjómannadagurinn var ekki haldinn hátíðlegur í ár, svo virðist sem hátíðarhöld sem fylgt hafa þessum degi séu því miður úr sögunni á Húsavík. Eins og fram hefur komið hefur Sjómannadeild Framsýnar séð um heiðrunina í umboði Sjómannadagsráðs undanfarin ár. Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöldin á Raufarhöfn auk þess að standa fyrir kaffiboði á Raufarhöfn í aðdraganda Sjómannadagsins. Heimamenn hafa lagt mikið upp úr því að viðhalda þessum sögulega degi með því að standa fyrir hátíðarhöldum á Raufarhöfn sem er vel.

Fræðslumál:

Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 194.173,- í styrki vegna starfsmenntunar. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Kaup á orlofsíbúð:

Framsýn hefur samþykkt að kaupa eina orlofsíbúð að Hraunholti 22 á Húsavík. Þingiðn hefur jafnframt samþykkt að kaupa hina íbúðina í húsinu. Um er að ræða 4 herbergja íbúð á einni hæð í tvíbýli. Íbúðin sjálf er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr fylgir íbúðinni. Eignin afhendist fullbúin með lóð 1. ágúst 2024 eða eftir nánara samkomulagi. Kaupverð kr. 69.350.000,-. Ákvörðunin um kaupin var tekin á sameiginlegum félagsfundi 21. nóvember þar sem tillaga um kaup á íbúðinni var samþykkt samhljóða. Með þessum kaupum vill félagið auka enn frekar þjónustu við almenna félagsmenn. Jafnframt er til skoðunar að nota íbúðirnar í skiptum, hluta úr ári, fyrir önnur orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík, sérstaklega yfir sumartímann. Félögin skoðuðu hvort þau ættu að fjárfesta í orlofshúsum í orlofsbyggðum t.d. á Suðurlandinu í stað þess að fjárfesta í orlofsíbúðum á Húsavík. Eftir skoðun var samþykkt samhljóða að fjárfesta frekar í íbúðum á Húsavík enda miklu betri nýting á slíkum íbúðum heldur en í orlofsbyggðum þar sem nýtingin á ársgrundvelli er um 12 vikur yfir sumarmánuðina. Auk þess sem það er miklu kostnaðarasamara að reka orlofshús í skipulögðum orlofsbyggðum en á Húsavík. Full ástæða er til að óska félagsmönnum Þingiðnar og Framsýnar til hamingju með kaupin á íbúðunum sem koma til með að fjölga orlofskostum félagsmanna umtalsvert á komandi árum.                                 

Félagsmönnum utan Húsavíkur sem þurfa á gistingu að halda vegna veikinda stendur einnig til boða að fá íbúðirnar leigðar þurfi þeir að vera tímabundið nálægt Heilbrigðisstofnun Þingeyinga af heilsufarsástæðum.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa sex starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim sex starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Sá starfsmaður mun flytjast alfarið til VIRK 1. maí 2024.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2023, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.“

Deila á