Ályktað um kjaramál – staðan óásættanleg með öllu

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær, 27. desember. Miklar umræður urðu um stöðu sjómanna sem hafa verið samningslausir á fimmta ár. Krafa sjómanna á Húsavík er að gengið verði frá viðunandi kjarasamningi fyrir sjómenn á næstu vikum, ef ekki er þess krafist að aðildarfélög Sjómannasambands Íslands knýi á um lausn kjaradeilunnar með viðeigandi aðgerðum. Ályktun fundarins er eftirfarandi:

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar, haldinn 27. desember 2023 ítrekar kröfur félagsins um að þegar í stað verði gengið frá viðunandi kjarasamningi fyrir hönd sjómanna sem byggir á kröfugerð aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands. Svo það sé rifjað upp, þá hafa sjómenn verið samningslausir frá 1. desember 2019.

Aðalfundurinn skorar á samtök sjómanna að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarfyrirtækjum í samráði við aðildarfélögin til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, náist ekki kjarasamningar í ársbyrjun 2024. Núverandi ástand og samningsleysi sjómanna á fimmta ár er ólíðandi með öllu og útgerðarmönnum til skammar. Það er ekki í boði að láta enn eitt árið líða án þess að gengið verði frá kjarasamningi við samtök sjómanna.“

Deila á