Kallað eftir aðhaldi í hækkunum á gjaldskrám sveitarfélaga

Framsýn kallaði nýlega eftir upplýsingum frá sveitarfélögum á félagssvæðinu, það er Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi varðandi breytingar á gjaldskrám sem og öðrum þjónustugjöldum um næstu áramót.

Verkalýðshreyfingin er um þessar mundir að móta kröfugerð sem mun taka mið af hækkunum sveitarfélaga, ríkisstofnana og á almennu verðlagi í landinu sem rokið hefur upp, ekki síst síðustu mánuðina. Kjarasamningar eru almennt lausir á almenna vinnumarkaðinum í lok næsta mánaðar.

Í svari frá Tjörneshreppi kemur fram að ekki séu fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins milli ára. Útsvarsprósentan verði áfram 14,22%.

Í svari Þingeyjarsveitar kemur fram að sveitarfélagið muni fullnýta útsvarið skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga eða 14,74%. Fasteignaskattur verði óbreyttur frá fyrra ári. Þá munu gjaldskrár sveitarfélagsins hækka almennt um 7,5% í samræmi við verðlagsþróun.

Í svari Norðurþings kemur fram að útsvarsprósentan verði áfram 14,74% vegna ársins 2024 og óbreytt álagning fasteignagjalda. Þá muni gjaldskrár sveitarfélagsins almennt hækka um 7,5% með nokkrum undantekningum. Gjaldskrá bókasafnsins hækkar upp í kr. 3.500,-. Gjaldskrá íþróttamannvirkja, 15% hækkun á gjaldskrá skíðasvæðis. Þá liggur fyrir að eldri borgarar fái 40% afslátt af gjaldskrá fullorðinna hjá sundlaugum Norðurþings.

Í bókun byggðaráðs þar sem erindi Framsýnar var til umræðu varðandi það að ríkið og sveitarfélög á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum gættu hófs í hækkunum á þjónustugjöldum kemur fram að byggðaráð telji þær tillögur að gjaldskrám sem nú þegar hafa verið samþykktar í sveitarstjórn hafi gert ráð fyrir hófstilltum hækkunum. Við umræðuna lagði Benóný Valur fram eftirfarandi bókun; „Tekur undir hluta af ályktun Framsýnar hvað varðar álögur á barnafjölskyldur.“

Að mati Framsýnar eru um að ræða verulegar hækkanir á gjaldskrám Þingeyjarsveitar og Norðurþings sem munu koma sér afar illa fyrir marga, ekki síst fyrir barnafjölskyldur og þá sem búa við það hlutskipti að vinna almenna verkamannavinnu þar sem mánaðarlaunin eru um kr. 400.000,- samkvæmt ákvæðum kjarasamninga á mánuði. Verkalýðshreyfingin í Íslandi hefur haft sérstakar áhyggjur af stöðu þessara hópa, ekki síst í ljósi aðstæðna í dag og boðuðum hækkunum á gjaldskrám sveitarfélaga víðs vegar um landið sem og almennu verðlagi.

Vitað er að Samband ísl. sveitarfélaga ætlar ekki að skorast undan ábyrgð ef marka má bókun sambandsins til að hægt verði að tryggja frið á vinnumarkaði eftir áramótin.

Í ljósi efnahagsþróunar telur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að mikilvægt sé að horft verði til samstillts átaks til að kveða niður verðbólguna. Komi til þess þá er sambandið tilbúið til að koma að slíku átaki.“

Að mati Framsýnar verða allir að taka höndum saman svo hægt verði að tryggja frið á vinnumarkaði, það er verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur, sveitarfélögin, stjórnvöld, þjónustuaðilar og fjármálastofnanir. Það er besta leiðin til að ná niður verðbólgunni, vöxtum, vöruverði og tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu.

Deila á