Framsýn varar við vaxtahækkunum og afkomukreppu verkafólks

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar síðdegis í dag. Meðal þess sem var til umræðu á fundinum voru endalausar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands.

Ljóst er að hækkanirnar hitta ekki síst láglaunafólk illa fyrir. Mikil reiði kom fram á fundinum með stöðu mála. Eftir kröftugar umræður samþykkti fundurinn samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun þar sem stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og getuleysi stjórnvalda er mótmælt harðlega:

Ályktun
stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar vegna vaxtahækkana og afkomukreppu

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðugum stýrivaxtahækkunum Seðlabanka Íslands og telur stjórnvöld sýna fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart versnandi afkomu fólksins í landinu.

Framsýn vekur athygli á að verðbólga fer nú hjaðnandi sökum lækkandi húsnæðisverðs, minna hækkana á erlendum aðföngum og styrkingar krónunnar. Þrátt fyrir þetta telur Seðlabankinn þörf á að hækka stýrivexti enn einu sinni og leggja enn auknar byrðar á heimilin í landinu sem hafa mátt þola mikla kaupmáttarskerðingu sökum hækkandi greiðslubyrði lána og mikilla hækkana á innlendri vöru og þjónustu.

Enn á ný vekur athygli algjört áhugaleysi stjórnvalda gagnvart afkomu almennings. Verður tæpast önnur ályktun dregin en að ráðamenn séu í engum tengslum við fólkið í landinu enda njóta þeir sérkjara í flestum efnum.

Framsýn telur enga þörf á frekari stýrivaxtahækkunum sem nú þegar hafa fært herkostnaðinn af baráttu við verðbólguna á heimilin í landinu. Ljóst er að það er í verkahring stjórnvalda að milda áhrifin með  sértækum aðgerðum.  Í því efni sem flestum öðrum kjósa íslenskir ráðamenn að skila auðu og varpa ábyrgðinni yfir  á Seðlabankann.

Þetta reiptog stjórnvalda og Seðlabanka bitnar fyrst og fremst á almenningi sem sér fram á enn frekari lífskjararýrnun vegna áhugaleysis og vanhæfni þess fólks sem kosið hefur verið til að stýra þjóðarbúinu. Líkt og jafnan eru það heimilin í landinu sem verða fyrir þyngsta högginu og enn fer því fjarri að áhrif fyrri vaxtahækkana hafi komið fram.

Framsýn telur ríkisstjórnina sýna þess merki að innri átök hafi svipt hana getu til að bregðast við því ófremdarástandi sem þensla, verðbólga og vaxtahækkanir skapa og verður til þess að dýpka enn þá afkomukreppu sem þjakar launafólk í landinu.“

Deila á