Þeir fiska sem róa – Myndlistarsýning

Andrea Ólafs er mögulega betur þekkt samferðafólki frá Húsavík sem skólasystir í grunn- og framhaldsskóla og síðar á landsvísu fyrir samfélagsbaráttu sína, bæði sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og í framboði til þings og forsetaembættis. 

Í seinni kafla lífsins hefur Andrea hins vegar yfirgefið pólitíkina og hefur þess í stað valið að leggja fyrir sig listsköpun. Hún segir Listagyðjuna sjálfa hafa ýtt við henni í draumförum og vakið skaparinn af værum blundi með tilheyrandi gleði og hamingju. Þeirri hamingju er erfitt að lýsa, því það er ekkert tungumál sem nær utan um hana – hún býr einfaldlega í rótum hjartans segir Andrea. 

Andrea hefur ákveðið að deila sköpunargleðinni á æskustöðvunum í ár, með Húsvíkingum og gestum Mærudaga og býður alla hjartanlega velkomna á opnun sýningarinnar „Þeir fiska sem róa“Sýningin er sú þriðja í sýningarröð sem kallast „Listin að lifa“ sem fór af stað í tilefni hálfrar aldar afmælis listamannsins í ágúst síðast liðnum. Sýningin verður formlega opnuð á fimmtudaginn 27. júlí kl. 17 í félagsheimili eldri borgara í Hlyn á Garðarsbraut 44 og stendur yfir á Mærudögum. 

Deila á
Kristján Ingi Jónsson Fréttir