Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka fyrir þjónustu við atvinnuleitendur á Húsavík. Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer m.a. með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa auk fjölmargra annara vinnumarkaðstengdra verkefna. Í tilkynningu kemur fram að þjónustuskrifstofu stofnunarinnar verði lokað frá 3. júlí 2023. Atvinnuleitendum og atvinnurekendum er bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofuna á Akureyri. Í október 2020 óskaði Framsýn eftir samstarfi við Vinnumálstofnun sem byggði á því að stéttarfélögin legðu til aðstöðu fyrir starfsmann stofnunarinnar á Skrifstofu stéttarfélaganna endurgjaldslaust og Vinnumálastofnun bæri ábyrgð á starfsmanninnum og greiddi honum laun sem stofnunin samþykkti. Frá þeim tíma hefur starfsmaðurinn verið við störf á Húsavík auk þess að gegna störfum á Akureyri með starfinu á Húsavík. Hér á árum áður hélt stofnunin úti þjónustu á Húsavík sem síðar lagðist af. Að frumkvæði Framsýnar opnaði Vinnumálastofnun aftur formlega skrifstofu á Húsavík í október 2020 eins og fram kemur í fréttinni sem nú hefur verið samþykkt að leggja af sem eru mikil vonbrigði. Stjórn Framsýnar hefur samþykkt að fela formanni félagsins að hafa samband við Vinnumálastofnun og gera alvarlegar athugasemdir við ákvörðunina um að leggja af þjónustu á Húsavík við atvinnuleitendur, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Eðlilegra hefði verið að efla starfsemina í Þingeyjarsýslum og auka jafnframt vinnustaðaeftirlit með öðrum hagsmunaaðilum sem koma að þessum málum enda atvinnulífið í mikilli sókn á Norðausturhorninu.