Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Þess ber að geta að Linda M. Baldursdóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn. Hann var valinn úr hópi 21 umsækjenda um starfið. Þá var jafnframt ákveðið að ráða Agnieszku Szczodrowska í hlutastarf við almenn skrifstofustörf, þýðingar og vinnustaðaeftirlit frá og með 1. febrúar 2023. Agnieszka verður í 50% starfi. Hugmyndin með hennar ráðningu er ekki síst að bæta þjónustu við erlenda félagsmenn sem fjölgar ár frá ári á félagssvæðinu. Full ástæða er til að þakka Lindu fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Linda var góður liðsmaður. Skrifstofan tók að sér að halda utan um Félagsmannasjóð fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi. Sjóðurinn var áður í vörslu SGS en vegna óánægju aðildarfélaga sambandsins með rekstur sjóðsins var ákveðið að stéttarfélög starfsmanna tækju yfir starfsemi sjóðsins. Framsýn tók yfir sjóðinn fyrir sína félagsmenn 1. október 2022. Félagsmannasjóður varð til við undirritun kjarasamninga 16. janúar 2020. Sveitarfélög greiða 1,5% í sjóðinn til viðbótar launum starfsmanna á ársgrundvelli. Greitt er úr sjóðnum einu sinni á ári, það er 1. febrúar ár hvert. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.
Hér með er lokið umfjöllun um aðalfund Framsýnar sem fram fór í maí 2023.