Fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2022. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði milli ára úr 2.731 iðgjaldagreiðendum í 3.016 eða um 285 félagsmenn sem er ánægjulegt. Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitamennt, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Ekki er lagt upp með að Skrifstofa stéttarfélaganna skili hagnaði enda skal rekstur hennar skiptast á deildir Framsýnar, Þingiðnar og STH. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 345,8 milljónum sem er hækkun um 20% milli ára. Þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af hærri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 295 milljónum 2022 á móti kr. 241 milljónum á árinu 2021 sem er hækkun upp á um 22%. Rekstrargjöld hækka um 34,5% á milli ára en þau námu kr. 248,2 milljónum 2022. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði sem eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Greiðslur úr sjúkrasjóði hækkuðu um 33 milljónir samanborið við 2021. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 55 milljónum. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu saman rúmar kr. 6 milljónir til rekstursins. Fjármagnstekjur námu kr. 128 milljónum en voru 71 milljón á árinu 2021. Í lok árs 2020 var samið við Motus um að sjá um innheimtu gagnvart þeim sem ekki standa í skilum við félagið. Að auki hefur verið lögð áhersla á að koma sem flestum greiðendum í kröfur í stað millifærslna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og innheimtumál Framsýnar því í góðum málum.