Fréttir af aðalfundi Framsýnar – við förum í fríið!

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið á liðnum árum með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Framsýn á tvö orlofshús,  á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og fjórar íbúðir í Kópavogi, eina á Akureyri og eina í Reykjavík. Orlofshúsið í Dranghólaskógi hefur verið notað í leiguskiptum á sumrin fyrir annað orlofshús í Svignaskarði í Borgarfirði sem er í eigu Eflingar. Leiguskiptin hafa komið vel út. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð í gegnum Hrunabúð sf. að Garðarsbraut 26, efri hæð sem hefur verið útleigu. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000 fyrir viku dvöl í þeim húsum sem félagið er með á leigu hjá öðrum aðilum. Þá fengu 86 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.441.806,-. Árið áður fengu 78 félagsmenn þessa styrki, samtals kr. 1.506.910,-. Ekki var boðið upp á sumarferð 2022 þar sem ekki náðist þátttaka í sögu- og gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur Framsýnar við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Þá gekk Framsýn frá samningi við Icelandair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningurinn felur í sér að flugfélagið veitir stéttarfélaginu 10% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiðir stéttarfélagið flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá Icelandair.

Deila á