Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Stöndum vaktina með vinnustaðaeftirliti

Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Í heimsfaraldrinum var starfið lagt niður tímabundið. Félögin hafa nú endurráðið í starfið. Hugmyndin er að tveir starfsmenn sinni starfinu í hlutastörfum með öðrum störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig vilja stéttarfélögin halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna.

Deila á