Aðalfundur Þingiðnar – í fréttum er þetta helst!

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gærkvöldi. Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og þá var samþykkt að auka greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði þar sem reksturinn hefur gengið vel. Þá var einnig samþykkt að gera smávægilegar breytingar á lögum félagsins, það er að útvíka félagssvæðið. Meðfylgjandi þessari frétt eru nokkrir punktar úr skýrslu stjórnar. Í boði er fyrir félagsmenn, sem ekki komust á fundinn, að nálgast skýrslu stjórnar og ársreikninga á Skrifstofu stéttarfélaganna.

 • Félagsmenn í Þingiðn voru samtals 124 þann 31. desember 2022, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi fullgildir félagsmenn voru 104. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á liðnum árum sem tengdust uppbyggingunni á Bakka. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á félagssvæðinu sem tryggt hefur gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna. Reyndar er vöntun á iðnaðarmönnum til starfa.
 • Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2022 námu kr. 17.601.653,- sem er 17,5% hækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 20.730.939,- og hækkuðu um sömu prósentu. Rekstrargjöld voru kr. 20.977.605,- og lækkuðu um 11,8% frá síðasta ári. Þar ræður mestu bætur og styrkir sem lækkuðu umtalsvert á milli ára. Á árinu 2022 námu þær kr. 8.169.819,- þar af úr sjúkrasjóði kr. 6.620.793,- sem er um 34,6% lækkun frá 2021 og skýrist fyrst og fremst af lægri greiðslum sjúkradagpeninga til félagsmanna. Árið 2022 voru alls greiddir úr sjúkrasjóði 69 styrkir eða sjúkradagpeningar til félagsmanna. Árið áður voru greiddir 72 styrkir. Fjármagnstekjur hækkuðu úr kr. 7.223.637,- árið 2021 í kr. 14.287.573,- árið 2022 sem gerir um 98% hækkun. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 14.040.907,- en hann var kr. 1.092.593,- árið áður. Heildareignir í árslok voru kr. 276.125.376,- og eigið fé nam kr. 265.558.024,- og hefur það aukist um 5,6% frá fyrra ári.
 • Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.405.978,-.
 • Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000,- fyrir viku dvöl. Þá fengu 14 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 302.300,-. Ekki var boðið upp á sumarferð 2022 þar sem ekki náðist þátttaka í sögu- og gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Þá gengu stéttarfélögin frá samningum við Icelandair og Niceair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningarnir fela í sér að flugfélögin veita stéttarfélaginu 10 til 20% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiðir stéttarfélagið flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá flugfélögunum. Reyndar hefur Niceair nú óskað eftir gjaldþrotaskiptum sem eru mikil vonbrigði, það er, að ekki sé hægt að halda úti millilandaflugi frá Norðurlandi með góðu móti. 
 • Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi og gengur rekstur hennar mjög vel. Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Komið hefur verið upp hleðslustöð fyrir gesti íbúðar félagsins í Þorrasölum. Þá eru einnig til staðar tvær stöðvar á bílaplaninu sem eru í eigu húsfélagsins. Til stendur að mála fjölbýlishúsið í sumar. Framkvæmdin er á vegum húsfélagsins. Þá er til skoðunar að mála íbúð félagsins síðar á árinu, eða næsta vetur ásamt íbúðum Framsýnar í Þorrasölum.
 • Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018. 
 • Á síðasta ári fengu 12 félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Þingiðnar til náms/námskeiða samtals kr. 1.146.726,-.
 • Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 6.620.793,- á árinu 2022. Árið 2021 voru greiddar kr. 11.396.896,- í styrki til félagsmanna. Greiðslur til félagsmanna lækkuðu því töluvert milli ára. Alls fengu 69 félagsmenn greiðslur úr sjóðnum á árinu 2022.
 • Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan skammtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 12. desember 2022 með gildistíma til 31. janúar 2024. Í kjölfarið boðaði félagið til kynningarfundar um samninginn. Atkvæðagreiðslan um samninginn var rafræn. Samningurinn var samþykktur. Í heildina voru 89 félagsmenn á kjörskrá, alls greiddu 14 atkvæði eða 15,7% félagsmanna. 71,43% félagsmanna samþykktu kjarasamninginn. Þá kom félagið að sérkjarasamningi við PCC á Bakka, ásamt Framsýn stéttarfélagi. Sá samningur var sömuleiðis samþykktur í atkvæðagreiðslu enda hluti af aðalkjarasamningi félaganna við Samtök atvinnulífsins og því með sama gildistíma, það er til 31. janúar 2024.
 • Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu.
 • Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Í heimsfaraldrinum var starfið lagt niður tímabundið. Félögin hafa nú endurráðið í starfið. Hugmyndin er að tveir starfsmenn sinni starfinu í hlutastörfum með öðrum störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig vilja stéttarfélögin halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri.
 • Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023. Eftir hátíðarhöldin í höllinni í fyrra var ákveðið að breyta til og færa hátíðina á Fosshótel Húsavík til prufu. Ástæðan er að fólki hefur frekar fækkað sem sækir viðburði sem þennan auk þess sem samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Þeir sem eldri eru hafa verið mjög duglegir við að sækja hátíðarhöldin meðan þeir sem yngri eru búa ekki yfir sama áhuga sem og erlendir félagsmenn. Þess vegna var ákveðið að færa hátíðarhöldin á hótelið þar sem góð þjónusta er í boði til að halda samkomu sem þessa. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Óhætt er að segja að breytingarnar hafi tekist vel og voru hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík vel sótt og öllum til mikils sóma. Salurinn á Fosshótel Húsavík hefur þegar verið tekinn frá fyrir hátíðarhöldin á næsta ári.
 • Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26, kr. 48 milljónir. Heildarvelta félagsins árið 2022 var kr. 10,1 milljónir samanborið við kr. 7,6 milljóna veltu árið 2021. Tekjuafgangur ársins nam kr. 1,6 samanborið við kr. 0,3 milljón árið 2021.
 • Til viðbótar eiga Framsýn og Þingiðn orlofsíbúð að Garðarsbraut 26, efri hæð sem fellur undir rekstur Hrunabúðar. Íbúðin sem um ræðir er alls 232,2 fm. Búið er að innrétta um 180 fm. af íbúðinni. Íbúðin er í mjög góðu standi og meðfylgjandi er ófrágengið rými upp á um 50 fm. sem stendur til að innrétta á árinu 2023. Íbúðin er í útleigu.
 • Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009.  Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu.
 • Á síðasta ári samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna sameiginlega innkaupastefnu fyrir félögin, en þar er um að ræða ákveðið frumkvæði þar sem ekki er vitað til þess að önnur stéttarfélög hafi komið sér upp slíkri stefnu. Lögfræðingar stéttarfélaganna og ASÍ komu að því að móta stefnuna með forsvarsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaganna. Fram kom ánægja hjá þeim með frumkvæði stéttarfélaganna að móta sér reglur varðandi það að tryggja hagkvæmni í kaupum á vörum og þjónustu fyrir stéttarfélögin, en ekki síður að stuðla með þessu að góðu viðskiptasiðferði.
 • Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn/Þingiðn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Þess ber að geta að Linda M. Baldursdóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn. Hann var valinn úr hópi 21 umsækjenda um starfið. Þá var jafnframt ákveðið að ráða Agnieszku Szczodrowska í hlutastarf við almenn skrifstofustörf, þýðingar og vinnustaðaeftirlit frá og með 1. febrúar 2023. Agnieszka verður í 50% starfi. Hugmyndin með hennar ráðningu er ekki síst að bæta þjónustu við erlenda félagsmenn sem fjölgar ár frá ári á félagssvæðinu. Full ástæða er til að þakka Lindu fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Linda var góður liðsmaður.
 • Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál.
 • Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar.
 • Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:
 • Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.
 • Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi.
 • Félagið kom að því að halda tveggja daga trúnaðarmannanámskeið í mars 2023, það er með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.
Deila á