Líflegur aðalfundur sjómanna – ályktað um kjaramál

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í fær, fimmtudag. Fundurinn var vel sóttur en hann hófst kl. 17:00 og lauk kl. 21:30. Jakob Hjaltalín var endurkjörinn formaður deildarinnar. Reyndar var öll stjórnin endurkjörin enda fundarmenn á því að hún væri mjög vel mönnuð og því ekki ástæða til að gera breytingar.

Hér koma helstu niðurstöður fundarins.

Formaður, Jakob G. Hjaltalín, flutti skýrslu stjórnar sem er svohljóðandi:

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2023.  Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2022, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:
Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í rúmlega þrjú ár sem er ekki boðlegt. Því miður hafa SFS dregið lappirnar í samningaviðæðunum í stað þess að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna. Kjaradeilan við SFS hefur verið inn á borði Ríkissáttasemjara þar sem samtök sjómanna vísuðu deilunni þangað á síðasta ári þar sem samningaviðræðurnar sigldu í strand. Að sjálfsögðu geta sjómenn ekki látið bjóða sér þetta ástand endalaust. Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar gekk frá nýjum sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á árinu. Gengið var frá samningnum 31. mars 2022. Afar mikilvægt er að viðhalda samningnum þar sem fjöldi fólks starfar við hvalaskoðun frá Húsavík.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Aðalsteinn Steinþórsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og formann Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma.

Formannafundur aðildarfélaga SSÍ:
Haldinn var fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands í Vestmannaeyjum dagana 7. – 9. október 2022. Formaður Sjómannadeildar Framsýnar tók þátt í fundinum. Á fundinum var farið yfir helstu málefni sjómanna og kjaraviðræðurnar milli sambandsins og SFS frá því kjarasamningar losnuðu þann 1. desember 2019. Viðræðurnar hafa fram til þessa engum árangri skilað þrátt fyrir fjölmarga fundi í deilunni. Megn óánægja kom fram á fundinum með stöðu mála. Talað var um að fara í aðgerðir eftir áramótin enda staðan ólíðandi með öllu.

Heiðrun sjómanna:
Allt frá árinu 2010 hefur Sjómannadeild Framsýnar séð um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Heiðrun sjómanna féll niður árin 2020 og 2021 vegna Covid. Í ár var hefðin endurvakin og tveir sjómenn heiðraðir á Sjómannadaginn. Það voru þeir Aðalsteinn Ólafsson og Hreinn Jónsson sem verið hafa til sjós í marga áratugi. Athöfnin fór fram í húsnæði Eldri borgara á Húsavík, Hlyn. Formenn deildarinnar og félagsins, Jakob og Aðalsteinn Árni, komu að því að heiðra sjómennina. Athöfnin fór vel fram.

Sjómannadagurinn:
Því miður hafa mál þróast þannig að Sjómannadagurinn er ekki sá sami og var áður hvað hátíðarhöld varðar á Húsavík. Það á reyndar við um flesta útgerðarstaði á Íslandi sem væntanlega tengist breyttum útgerðarháttum í flestum sjávarplássum. Sjómannadeildin hefur komið að því að styrkja hátíðarhöldin á Húsavík og á Raufarhöfn auk þess að standa fyrir kaffiboði á Raufarhöfn í aðdraganda Sjómannadagsins. Þannig hefur deildin viljað leggja sitt að mörkum til að viðhalda þessari sögulegu hefð í starfi sjómanna á Íslandi.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 354.410,- í styrki vegna starfsmenntunar. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Til stendur að ráða til viðbótar starfsmann í 50% starf í byrjun næsta árs með áherslu á aukið vinnustaðaeftirlit og þjónustu við erlenda félagsmenn á svæðinu.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2022, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum.  Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Opnað var á umræður um skýrslu stjórnar. Nokkrar fyrirspurnir komu fram sem formaður svaraði. Börkur Kjartansson spurði út í Sjómennt og styrki úr sjóðnum. Umræður urðu um lífeyrissjóðsframlög útgerðarmanna og séreignasparnað sjómanna. Þá urðu einnig umræður um framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna og skiptimannakerfi um borð í fiskiskipum.

Að venju fór fram kjör á stjórn deildarinnar á fundinum. Eftirtaldir hlutu kosningu:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

Börkur Kjartansson varaformaður

Gunnar Sævarsson ritari

Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi

Héðinn Jónasson meðstjórnandi

Að sjálfsögðu var sérstakur liður á fundinum um kjaramál. Formaður fór yfir stöðuna í kjaramálum og umræðuna sem var á formannafundi SSÍ í Vestmannaeyjum í október. Þar hefði verið talað um að boða til verkfalls í febrúar á næsta ári. Eftir miklar og góðar umræður um kjaramál og virðingarleysi útgerðarmanna í garð sjómanna samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um kjaramál:

Ályktun um samningsleysi sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar, haldinn 29. desember 2022 ítrekar kröfur félagsins á hendur útgerðarmönnum í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Krafa aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands er skýr um að sjómenn fái inn í kjarasamninginn ákvæði um að útgerðin greiði 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði sjómanna með sama hætti og launafólk á almenna vinnumarkaðnum hefur þegar samið um við atvinnurekendur.

Jafnframt fái sjómenn sömu hækkanir á kauptryggingu sjómanna og aðra kaupliði og samið hefur verið um á almenna vinnumarkaðinum frá árinu 2019. Það er með öllu ólíðandi að kauptrygging sjómanna sé langt undir lágmarkslaunum á Íslandi en hún er í dag kr. 326.780,- meðan lágmarkslaun eru kr. 402.235,- samkvæmt kjarasamningi SGS og SA.

Aðalfundurinn skorar á samtök sjómanna að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarfyrirtækjum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna. Núverandi ástand og samningsleysi sjómanna á fjórða ár er ólíðandi með öllu og útgerðarmönnum til skammar. Það er ekki í boði að láta enn eitt árið líða án þess að gengið verði frá kjarasamningi við samtök sjómanna.“

Deila á