Líf og fjör á jólafundi

Hefð er fyrir því innan Framsýnar að halda jólafund félagsins á aðventu fyrir stjórn, trúnaðarráð, trúnaðarmenn, starfsmenn  og stjórn Framsýnar-ung. Þannig vill Framsýn þakka þeim fjölmörgu, sem flestir starfa í sjálfboðavinnu, fyrir framlag þeirra í þágu félagsmanna. Auk venjulegra fundarstarfa var boðið upp á kvöldverð og skemmtiatriði sem fundarmenn sáu sjálfir um að tendra fram. Að venju stóð skemmtinefndin sig afar vel sem Ósk Helgadóttir fór fyrir. Þá má ekki gleyma því að starfsfólkið á Gamla bauk sá til þess að enginn færi svangur heim. Linda M. Baldursdóttir var kjörin jólasveinn ársins fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og þá var Ósk varaformaður heiðruð með blómvendi frá samstarfsfólkinu innan Framsýnar en hún hefur verið mjög virk í starfi félagsins enda einstök kona í alla staði er viðkemur ekki síst verkalýðsmálum. Myndirnar frá fundinum tala sínu máli en það er bæði gefandi og skemmtilegt að starfa fyrir eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Höfum í huga að það er alltaf pláss fyrir áhugasama félagsmenn sem vilja gefa kost á sér í gefandi og skemmtileg störf í þágu Framsýnar.

Deila á