Takk fyrir að vera til staðar fyrir nærsamfélagið!

Stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, hélt sinn síðasta stjórnarfund á árinu í Dalakofanum í Reykjadal rétt fyrir jólin. Þar tóku á móti þeim geislandi starfsmenn og heiðurshjónin Haraldur Bóasson og Þóra Fríður Björnsdóttir. Hjónin hafa rekið veitingastaðinn af miklum myndarskap í rúmlega áratug auk þess að reka verslun í sama húsnæði. Ljóst er að þjónusta sem þessi er afar mikilvæg fyrir nærsamfélagið og þann mikla fjölda ferðamanna sem leið eiga um Reykjadalinn á hverjum tíma. Á ferð sinni í Dalakofann notaði stjórn Þingiðnar tækifærið og þakkaði þeim hjónum fyrir framlag þeirra til samfélagsins með smá glaðningi frá félaginu.

Sé sagan skoðuð má geta þess að Haraldur Bóasson og Þóra Fríður Björnsdóttir keyptu fyrirtækið Útibú ehf. þann 1. september 2011 sem áður var í eigu hlutafélagsins Kjarna. Tekin var ákvörðun um að halda í nafnið, enda hefur staðurinn gengið í gegnum nokkrar nafnabreytingar í gegnum árin og Dalakofinn hafði sest vel í sessi hjá viðskiptavinum. Húsið sem hýsir Dalakofann var byggt árið 1962 sem útibú frá Kaupfélagi Þingeyinga. Húsnæðið var þá fyrst og fremst verslunarhúsnæði. Árið 1999 fékk staðurinn nýtt hlutverk undir nafninu Laugasel, og var staðnum þá breytt í núverandi mynd, með veitingastað þar sem áður var verslun og verslun þar sem áður var lager. Staðurinn hefur í gegnum tíðina verið rekinn sem fjölskyldufyrirtæki. Fjölskyldan hefur auk þess komið að því að reka tjaldstæði við íþróttavöll sveitarfélagsins, en hann er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá veitingastaðnum.

Deila á