Kalla eftir uppbyggingu á leiguhúsnæði

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eiga aðild að, Framsýn, Þingiðn og STH. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma. Nýlega stóðu stéttarfélögin í samstarfi við Norðurþing fyrir fundi með framkvæmdastjóra leigufélagsins, Birni Traustasyni um hugsanlegt samstarf um uppbyggingu á leiguhúsnæði í Norðurþingi. Fundurinn var vinsamlegur í alla staði og fram kom fullur vilji fundarmanna til að þróa samstarfið áfram. Fyrir liggur að það er mikil vöntun á leiguhúsnæði á Húsavík fyrir tekjulága. Þá kallar frekari atvinnuuppbygging í Öxarfirði á aukið framboð á húsnæði fyrir þá sem vilja setjast að á svæðinu. Rétt er að ítreka að Bjarg íbúðafélag er sérsniðið að tekjulágum einstaklingum á vinnumarkaði sem eiga hvað erfiðast með að komast í leiguhúsnæði á almenna húsnæðismarkaðinum vegna tekna.

Deila á