Helstu upplýsingar um nýgerðan kjarasamning á mannamáli – Tökum þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn  

Mikilvægar upplýsingar:
Hér má lesa helstu upplýsingar um nýgerðan kjarasamning SGS og SA sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum.

Fyrir hverja er samningurinn?
Takið vel eftir, kjarasamningurinn nær ekki til starfsmanna við verslun og þjónustu sem starfa eftir kjarasamningi Verslunar- og skrifstofufólks. Hann nær heldur ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.

Tímamót í samningagerð
Alls skrifuðu 17 af 19 aðildarfélögum SGS undir samninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara laugardaginn 3. desember. Um er að ræða svokallaðan skammtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem kjarasamningur á almennum vinnumarkaði gildir frá sama tíma og sá eldri rennur út, í því eru fólgin mikil verðmæti fyrir launafólk.

Yfir 50.000 kr. hækkun
Kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Dæmi um hækkun: Bílstjórar sem taka laun eftir 17. launaflokk hækka úr kr. 401.181,- í kr. 453.439,- frá 1. nóvember verði samningurinn samþykktur.

Hvað með hina sem ekki eru á töxtum?
Laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, hækka um 33.000 kr. frá 1. nóvember.

Desemberuppbótin fer yfir kr. 100.000,-.
Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023.

Góð hækkun á kaupauka
Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka kaupaukar í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 – 34.000 kr. hækkun á mánuði.

Hagvaxtaraukin kemur strax
Einnig náðist samkomulag um flýtingu hagvaxtarauka sem þýðir að hagvaxtaraukinn sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023 verður flýtt og verður hann að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Það mun skila ávinningi sem nemur 78.000 kr. eða tæpum 6.000 kr. á mánuði og er hann meðtalinn í áðurnefndum taxta- og mánaðalaunahækkunum. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka skv. kjarasamningnum frá 2019.

Samningurinn styður við kaupmátt launa láglaunafólks
Kjarasamningurinn er framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn styðji við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn geti þannig byggt undir stöðugleika og skapað forsendur fyrir langtímasamningi. 

Atkvæðagreiðsla hafin
Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna Framsýnar. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en mánudaginn 19. desember næstkomandi. Atkvæðagreiðslan hefst föstudaginn 9. desember kl. 12:00 og klárast kl. 12:00 mánudaginn 19. desember. Framsýn mun standa fyrir félagsfundi mánudaginn 12. desember auk þess sem vinnustöðum stendur til boða að fá kynningu á samningnum. Eitt símtal og við komum á svæðið í einum grænum.

Hafðu endilega samband
Starfsfólk stéttarfélaganna er ávallt reiðubúið að svara fyrirspurnum um samninginn og fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar. Endilega hafið samband.

Launahækkanir eru bundnar því að menn greiði atkvæði um samninginn og samþykki hann. Að öðrum kosti koma þær ekki til framkvæmda 1. nóvember.

Deila á