Formaður Framsýnar kom því ekki við að skrifa undir kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands fh. Framsýnar sem undirritaður var laugardaginn 3. desember hjá Ríkissáttasemjara í Reykjavík. Ástæðan var ljósmyndasýning á vegum Framsýnar og samstarfsaðila í Safnahúsinu á Húsavík á Fjölmenningardegi auk þess sem ekki er flogið frá Húsavík á laugardögum. Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA átti leið til Húsavíkur í morgun til að hefja viðræður við Framsýn og Þingiðn um endurnýjun á sérkjarasamningi stéttarfélaganna við PCC. Við það tækifæri kom hann með kjarasamninginn norður svo formaður Framsýnar gæti skrifað formlega undir samninginn sem nær til félagsmanna Framsýnar á almenna vinnumarkaðinum. Rétt er að taka fram að hann nær ekki til sjómanna eða verslunar- og skrifstofufólks innan félagsins. Atkvæðagreiðsla um samninginn mun hefjast á næstu dögum, henni á að vera lokið 19. desember. Nánar verður fjallað um kynningu á samningnum og atkvæðagreiðsluna hér á heimasíðunni á næstu dögum.