Ekki er ólíklegt að erlent starfsfólk gæti verið orðið allt að helmingi vinnuafls á Íslandi á komandi áratugum miðað við spár sem lagðar hafa verið fram. Frá 2010 hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 8,4% á meðan erlendum ríkisborgurum búsettum hér hefur fjölgað um 160%. Árið 2005 voru innflytjendur sjö prósent af starfandi fólki á vinnumarkaði á Íslandi. Þeim fjölgaði lítillega fram að hruni, þeim hætti þá að fjölga, en frá 2011 hefur þeim fjölgað nær stöðugt. Nú er talið að innflytjendur séu tæpur fjórðungur vinnuaflsins. Samtök atvinnulífsins hafa gefið út að flytja þurfi inn 12 þúsund starfsmenn á næstu fjórum árum. Störfum muni fjölga um 15 þúsund á árunum 2022 til 2025 en á sama tíma muni innlendum íbúum á starfsaldri einungis fjölga um 3 þúsund. Ef spá samtakanna rætist mun hlutfall innflytjenda af starfandi fólki vera komið yfir 27% á árinu 2025.
Varðandi félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur íbúum með erlent ríkisfang fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2011 til dagsins í dag, með smá niðursveiflu á tímabilinu sem tengist stórframkvæmdum á svæðinu. Íbúum með erlent ríkisfang var um 190 árið 2011 en var komið í 673 árið 2021. Sem hlutfall af íbúum á svæðinu fór það úr 4,43% 2011 í 15,26% árið 2021. Í ljósi þessa og þar sem flest bendir til þess að fjölgunin á erlendu vinnuafli verði nokkuð ör á félagssvæði stéttarfélaganna á komandi árum hafa félögin samþykkt að efla enn frekar þjónustu við erlenda félagsmenn og stórauka vinnustaðaeftirlit. Hvað það varðar er í vinnslu að ráða starfsmann til starfa hjá stéttarfélögunum eftir áramótin sem hafi það hlutverk að vera „umboðsmaður“ erlendra félagsmanna á félagssvæði stéttarfélaganna. Félögin eiga í viðræðum við einn af þeim sem sótti um starf þjónustufulltrúa hjá stéttarfélögunum um að taka starfið að sér. Fyrir Covid voru stéttarfélögin með Aðalstein J. Halldórsson í vinnustaðaeftirliti en starf hans var lagt niður í Covid. Nú þegar árar betur er full þörf á því að auka vinnustaðaeftirlitið um leið og þjónusta við erlenda félagsmenn verður stóraukið. Þannig tryggjum við best heilbrigðan vinnumarkað.
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum vinna að því að ráða starfsmann í hlutastarf til að sinna erlendum félagsmönnum á félagssvæðinu. Vilji félaganna er að stórauka þjónustu við þennan hóp félagsmanna sem fer fjölgandi þar sem veruleg vöntun er á vinnuafli á svæðinu.