Fjölmenni á ljósmyndasýningu

Fjölmenni var á ljósmyndasýningu sem Framsýn stóð að í Safnahúsinu á Húsavík í dag með samstarfsaðilum. Sýningin var hluti að fjölmenningadegi þar sem fulltrúar níu þjóðlanda kynntu matarhefðir frá sínum heimalöndum. Myndirnar á sýningunni voru teknar af Agli Bjarnasyni ljósmyndara sem vann þær í samstarfi við Framsýn og eru þær af erlendu fólki við störf í Þingeyjarsýslum. Boðið var upp á tónlistaratriði og stutt ávörp. Sýningin vakti mikla athygli, en hún verður áfram opin næstu vikurnar. Hér má sjá myndir frá opnuninni og ávarp Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar sem hún flutti í Safnahúsinu í dag:

Ágæta samkoma

Það er mér sönn ánægja að fá að fylgja hér úr hlaði verkefni sem hefur verið í vinnslu hjá Framsýn stéttarfélagi. Forsögu málsins má rekja til ársins 2018 er Framsýn vann ljósmyndaverkefni í samstarfi við Pétur heitinn Jónasson, til að minnast þess að 100 ár voru liðin frá því að húsvískar verkakonur stofnuðu með sér baráttusamtök, sem þær nefndu Verkakvennafélagið Von. Afrakstur vinnunnar með Pétri var sýning á tuttugu ljósmyndum frá fyrri hluta síðustu aldar og sýndu myndirnar verkakonur við störf. Hugmynd kviknaði að sambærilegu verkefni er viðkemur fólki sem hingað hefur komið erlendis frá í leit að atvinnu og betra lífi. Egill Bjarnason ljósmyndari var ráðinn til verksins en hann hafði áður sýnt verkefninu áhuga. Að verki loknu tók Þórhallur Jónsson hjá Perómyndum við,  framkallaði myndirnar og gekk frá þeim í ramma. Afraksturinn er til mikillar fyrirmyndar eins og sjá má þegar sýningin er skoðuð. Ástæða er til að þakka öllum þeim sem komu að verkefninu fyrir þeirra framlag.

Málefni fólks af erlendum uppruna hafa lengi verið okkur hugleikin. Árið 2007 fóru stéttarfélögin í  Þingeyjarsýslum og  Norðurþing í  samstarfsverkefni sem bar heitið „Samvinna og ábyrgð í málefnum innflytjenda. Þá var Skrifstofa stéttarfélaganna þegar orðin miðstöð ýmissar þjónustu fyrir erlenda starfsmenn á svæðinu. Markmið verkefnisins var að efla innflytjendur í Norðurþingi til þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu almennt, í samræmi við stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum, á þeim tíma. Verkefnið tókst mjög vel og voru helstu samstarfsaðilar sem fyrr segir Norðurþing og stofnanir þess, Þekkingasetur Þingeyinga og atvinnurekendur á svæðinu. Verkefnið fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála árið 2007 auk þess sem Norðurþing lagði því til fjármagn.

Það er gaman að geta þess hér að Framsýn og Þekkingarsetur Þingeyinga stofnuðu á þessum tíma saman Landnemaskóla fyrir nýbúa. Í skólanum var lögð sérstök áhersla á íslenskukennslu og gagnlega samfélagsfræði auk annarra þátta til að auðvelda fólki aðgengi að íslensku samfélagi. Virkilega áhugavert verkefni sem gekk vel.

Áætlað var að 185 erlendir íbúar hafi átt lögheimili í Þingeyjarsýslum í árslok 2007. Síðan þá hefur boltinn heldur betur rúllað, en í ársbyrjun 2022 voru erlendir íbúar á svæðinu orðnir 723 talsins eða um 16% íbúa.  Það má því kannski segja að verkefni stéttarfélaganna og Norðurþings  hafi verið mikilvægur undirbúningur að því sem koma skildi. Við lifum orðið í fjölmenningarsamfélagi.

Það er skylda stéttarfélaga að aðstoða þá sem hingað koma eftir bestu getu og það er ekki alltaf einfalt fyrir fólk að aðlagast samfélaginu og jafnvel gjörólíkri menningu. Og því miður er það svo að þessi hópur er mun útsettari en aðrir hópar fyrir launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði.  Samskipti við stofnanir samfélagsins geta reynst fólki ókleifir múrar og samskipti við annað fólk takmarkast þegar viðkomandi getur hvorki tjáð sig á móðurmáli okkar né tekið upplýsingum á því.

Hjá Framsýn ætlum við að efla okkar mikilvæga starf, ekki síst í þágu erlendra starfsmanna,   en félagsmenn Framsýnar af erlendu bergi brotnu eru nálægt 30%.  Við höfum í hyggju að ráða sérstakan starfsmann sem sem hefur gott vald á fleiri en einu erlendu tungumáli, til að sinna þessum málaflokki. Þannig getum við aukið upplýsingaflæði til þessa hóps og þá munum við einnig stórefla vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu.

Það sem liggur fyrst og fremst að baki þessarar sýningar er að við viljum auka vitund Þingeyinga á þeim fjölmörgu einstaklingum sem hingað koma frá ýmsum þjóðlöndum og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins, en við tölum gjarnan um sem erlent vinnuafl. Sumir þessir einstaklingar stoppa stutt, en við skulum ekki gleyma því að aðrir ílengjast hér.

Það þarf alltaf tvo í tangó. Við ætlumst til þess að fólk sem hér kemur aðlagi sig að íslensku samfélagi og menningu, en heimamenn þurfa líka að leggja sitt af mörkum til að mæta þeim, hvort heldur á vinnumarkaði eða annarstaðar. Ættum við ekki að spyrja okkur hvort að við séum nógu meðvituð um að láta nýbúana sem hingað koma finna að þau séu velkomin og raunverulega partur af samfélaginu? Að það séu ekki við og þau, heldur séum við öll í sama liði.

Ósk Helgadóttir

 

Deila á