Hvað gekk mönnum til á þingi ASÍ?

Þing Alþýðusambands Íslands sem haldið var í síðustu viku fer í sögubækurnar fyrir óeiningu og átök innan hreyfingarinnar. Tekist var á um völd, áhrif, persónur og stefnumál. Vissulega voru það mikil vonbrigði að þingið skyldi leysast upp í tóma vitleysu, sem kallaði á mjög neikvæða umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Fjöldi fólks skilur eðlilega ekki málavexti og hvað það er sem veldur ríkjandi ágreiningi innan verkalýðshreyfingarinnar og kallar því eftir skýringum.

Forystumenn í lang fjölmennustu stéttarfélögum landsins stigu fram í aðdraganda þingsins og gáfu kost á sér til forystustarfa í Alþýðusambandinu. Þau eiga það sammerkt að hafa kallað eftir áherslubreytingum í verkalýðsbaráttu á Íslandi nú þegar menn eru að sigla inn í krefjandi kjaraviðræður. Eins og hendi væri veifað fór fámennur en hávær hópur formanna innan Alþýðusambandsins af stað í sögulega herferð gegn því ágæta fólki sem var tilbúið að leiða sambandið til frekari sigra fyrir íslenska alþýðu. Þar fóru fremstir formenn sem hafa orðið undir og tapað völdum í hreyfingunni á undanförnum misserum og átt erfitt með að sætta sig við orðinn hlut.

Hægri öflin í þjóðfélaginu fögnuðu þessum ófriði að sjálfsögðu með flugeldasýningu og þá hafa afskipti fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ vakið töluverða athygli, en hún var ráðin til sambandsins á sínum tíma án þess að starfið væri auglýst sérstaklega, enda vinatengsl við þáverandi forseta. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hefur átt sviðið í fjölmiðlum og fengið hvert tækifærið á fætur öðru til að tala niður forystumenn þeirra stéttarfélaga sem kallað hafa eftir breytingum í hreyfingunni. Að hennar mati bera þau ábyrgð á því hvernig komið er fyrir verkalýðshreyfingunni. Að sjálfsögðu nefnir hún ekki félaga sína og símavini í hreyfingunni sem farið hafa hamförum í orðræðunni gegn formönnum Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness. Það er mikil einföldun að halda því fram að formenn fjölmennustu aðildarfélaga ASÍ beri einir ábyrgð á því hvernig komið er fyrir hreyfingunni, þar bera fleiri ábyrgð samanber skeytasendingar í fjölmiðlum sem staðið hafa yfir um langan tíma og standa enn yfir.

Þá vakti að sjálfsögðu athygli á þinginu að ákveðinn hópur hafði safnað saman fulltrúum að baki tillögu um að þingheimur ógilti kjörbréf Eflingar sem var með um 18% af þingfulltrúum. Áður hafði Kjörbréfanefnd ASÍ staðfest að kjörbréf félagsins stæðust reglur ASÍ og lýst fulltrúa þess rétt kjörna. Samt sem áður hófst skemmdarverkastarfsemin strax í upphafi þingsins. Svo fór, reyndar eftir harða gagnrýni annarra þingfulltrúa, að flutningsmaður tillögunnar dró hana til baka með skömm. Þrátt fyrir það var tilgangnum náð, fræjum efa og tortryggni hafði verið sáð og til þess var leikurinn gerður.

Til að gera frekari usla var áfram leitað  að aðilum til að bjóða sig fram í forsetasætin, gegn þeim sem kjörnefnd hafði stillt upp í aðdraganda þingsins. Vissulega var athyglisvert að sjá konur sem talað hafa fyrir jafnrétti innan verkalýðshreyfingarinnar styðja karlmann á móti Sólveigu Önnu Jónsdóttur, einu konunni sem stillt var upp í embætti forseta af kjörnefnd ASÍ.  Já, þetta er saga til næsta bæjar og fer á spjöld sögunnar.

Svo fór að frambjóðendur til forsetakjörs að undanskildum formanni Rafiðnaðarsambandsins drógu framboð sín til baka. Eðlilega var þeim misboðið að sitja undir linnulausum árásum frá „svokölluðum“ félögum sínum í hreyfingunni og gátu því ekki hugsað sér að starfa með þessum formönnum að framfaramálum innan hreyfingarinnar.

Eftir stendur að hreyfingin er klofin. Það var mjög sérstakt að upplifa það að forystumenn innan Starfsgreinasambands Íslands hafi viljað veikja stöðu sambandsins með því að styðja fulltrúa annars sérsambands innan Alþýðusambandsins í forsetakjöri, það er á móti formanni Eflingar, sem er stærsta aðildarfélag Starfsgreinasambandsins. Ég minnist þess ekki að hafa upplifað svona nokkuð áður, hvað þá að forystumenn innan sama sambands hafi ætlað að koma í veg fyrir kjör Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambands Íslands í  sæti þriðja forseta ASÍ. Rétt er að taka fram, þetta er ekki reifari, þetta gerðist þótt ótrúlegt sé á þingi Alþýðusambands Íslands árið 2022.  Til fróðleiks má geta þess að fram að þessu hefur verið sátt um að skipta embættum, það er forsetum og miðstjórnarmönnum eftir landssamböndum og félögum með beina aðild í hlutföllum við vægi þeirra á þinginu. Það er lýðræðið sem menn hafa unnið eftir fram að þessu til að tryggja að raddir mismunandi hópa innan Alþýðusambandsins nái að heyrast á vetfangi sambandsins. Annars væri veruleg hætta á því að fjölmennustu stéttarfélögin á hverjum tíma einokuðu allar helstu trúnaðarstöður innan  Alþýðusambandsins. Um þetta fyrirkomulag hefur gilt heiðursmannasamkomulag til þessa.

Framundan eru krefjandi tímar og strax um næstu mánaðamót losna kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Búið er að fresta þingi Alþýðusambandsins fram á næsta ár í þeirri von að öldur lægi. Hvað það varðar er vert að hafa í huga að sjaldan veldur einn er tveir deila. Við, kjörnir fulltrúar í verkalýðshreyfingunni hljótum öll að bera ábyrgð á því að sverðin verði slíðruð og við virðum skoðanir hvers annars, til frekari sigra fyrir vinnandi fólk. Notum slagkraftinn í hreyfingunni til góðra verka, annað er ekki í boði fyrir félagsmenn Alþýðusambands Íslands.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

 

Deila á