Meðfylgjandi þessari frétt er yfirlýsing frá formannafundi Sjómannasambands Íslands um kjaramál sem haldinn var í Vestmannaeyjum um helgina. Á fundinum var rætt um kjaramál sjómanna og stöðu viðræðnanna við SFS um endurnýjun kjarasamningsins sem hefur verið laus frá 1. desember 2019. Viðræðurnar hafa ekki skilað árangri fram til þessa og því var meðfylgjandi yfirlýsing samþykkt á formannafundinum.
“Yfirlýsing. Fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, haldinn í Vestmannaeyjum 7. og 8. október 2022, ítrekar kröfugerð sína á hendur útgerðarmönnum í yfirstandandi kjaraviðræðum. Krafa aðildarfélaganna er skýr um að sjómenn fái inn í kjarasamning sinn ákvæði um að útgerðin greiði 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði sjómanna með sama hætti og launafólk á almenna vinnumarkaðnum hefur þegar samið um við atvinnurekendur. Jafnframt fái sjómenn sömu hækkanir á kauptryggingu sjómanna og aðra kaupliði og samið var um á almenna vinnumarkaðnum árið 2019. Fundurinn felur formanni Sjómannasambandsins að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarmönnum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna. Vestmannaeyjum 8. október 2022.”