Norðurþing toppar PCC – Atvinnuleysistryggingasjóður fellur sem betur fer

Alls greiddu 2.731 félagsmenn til Framsýnar stéttarfélags á árinu 2021 en greiðandi félagar voru 2.644 árið 2020. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði því aðeins milli ára sem staðfestir að ástandið er að lagast eftir heimsfaraldurinn. Án efa mun félagsmönnum fjölga hratt á komandi árum eftir að atvinnulífið hefur náð sér eftir afleiðingar faraldursins.

 

Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.601 karlar og 1.130 konur sem skiptast þannig, konur eru 41% og karlar 59% félagsmanna. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 3.004 þann 31. desember 2021.

 

Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2021 eftir röð:

 

Sveitarfélagið Norðurþing

PCC BakkiSilicon hf.

GPG. Seafood ehf.

Norðlenska matarborðið ehf.

Hvammur, heimili aldraðra

Þingeyjarsveit

Ríkissjóður Íslands

Íslandshótel hf.

Samherji fiskeldi ehf.

Atvinnuleysistryggingasjóður

 

Sveitarfélagið Norðurþing greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2021 eða samtals um kr. 25,7 milljónir. Árið 2020 greiddi PCC mest allra fyrirtækja eða um 17,3 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar og í starfsmenntasjóði atvinnulífsins. Ánægjulegt er að sjá að Atvinnuleysistryggingasjóður fellur niður listann, fer úr öðru sætinu í það tíunda.  Því er spáð að Atvinnuleysistryggingasjóður falli enn frekar á næstu árum sem eru mikil gleðitíðindi gangi það eftir. Fall Atvinnuleysistryggingasjóðs í greiðslum til félagsins er ávísun á betra atvinnuástand sem ber að fagna sérstaklega.

 

 

 

Deila á