Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar fyrr á árinu var ákveðið að heiðra þrjá félagsmenn Framsýnar með gullmerki félagsins á aðalfundi þess sem fram fór í gær, en samkvæmt lögum félagsins er heimilt að velja heiðursfélaga og/eða sæma menn sérstaklega gullmerki félagsins. Sá siður að veita sérstakt gullmerki fyrir vel unnin störf hefur ekki verið viðhafður innan Framsýnar, en nokkrir einstaklingar hafa í gegnum tíðina verið gerðir að sérstökum heiðursfélögum. Þeir síðustu voru Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson og Kristbjörg Sigurðardóttir sem öll voru gerð af heiðursfélögum í Verkalýðsfélagi Húsavíkur/Framsýn stéttarfélagi.
Gullmerki Framsýnar er unnið af Kristínu Petru Guðmundsdóttur gullsmið. Það er gert eftir upprunalegu merki félagsins, sem hannað var af grafískum hönnuði, Bjarka Lúðvíkssyni, og tekið upp við sameiningu Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Húsavíkur undir nafninu Framsýn stéttarfélag árið 2008.
Í máli formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna, kom fram þegar hann talaði til þessara þriggja félagsmanna að það væri ekkert launungarmál að árangur félagsins og vinsældir væru ekki síst fólgin í fólkinu sem myndar félagið á hverjum tíma. Þátttaka launafólks í stéttarfélögum byggir upp sterk og öflug félög og það er ávinningur allra launamanna að vera í stéttarfélagi sem stendur vörð um hagsmuni félagsmanna.
Það væri hins vegar ekki sjálfgefið að fólk fengist til að sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar, allra síst nú á dögum þegar þátttaka fólks í félagsstörfum almennt virtist fara þverrandi. Það væri einkar ánægjulegt fyrir félagið að geta gefið til baka og sýnt því góða fólki sem starfað hefur lengi af óeigingirni og trúmennsku örlítinn þakklætisvott fyrir hið mikla starf sem þau hafa innt af hendi í okkar þágu. Á komandi árum munum við án efa veita fleiri slíkar viðurkenningar fólki sem starfað hefur af heilindum fyrir félagið okkar til lengri tíma um leið sagði Aðalsteinn Árni um leið og hann kallaði þau Dómhildi, Jakob Gunnar og Jónínu upp til að taka við gullmerki félagsins en þau hafa öll starfað um áratugaskeið fyrir félagið og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum af mikilli trúmennsku.
Jakob Gunnar Hjaltalín:
Jakob hefur að baki langan og farsælan sjómannsferil. Hann fór ungur á sjóinn og allt til ársins 2004 gegndi hann ýmsum störfum um borð í bátum og togurum af öllum stærðum og gerðum, var háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir. Jakob hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um borð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið formaður deildarinnar í 33 ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989. Þá hefur hann verið gjaldkeri stjórnar Framsýnar til margra ára. Síðustu árin á vinnumarkaði starfaði hann hjá Olís á Húsavík og hjá Samherja á Laugum þar sem rekin er fiskþurrkun. Jakob hefur í gegnum tíðina verið einstaklega góður félagi og tekið upp málstað sjómanna og félagsins hafi þess þurft með. Jakob hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til félagsins frá fyrstu tíð.
Jónína Hermannsdóttir
Jónína er orðin hluti af innréttingunum á Skrifstofu stéttarfélaganna enda búin að starfa hjá stéttarfélögunum frá 18. júní 1996 eða í um 26 ár um þessar mundir. Áður starfaði hún við fiskvinnslu og umönnun. Það segir eitthvað um Nínu að hún hafi náð þessum langa starfsaldri á mjög svo krefjandi vinnustað þar sem álagið er mikið flesta daga. Jónína hefur um árabil verið trúnaðarmaður starfsmanna á Skrifstofu stéttarfélaganna auk þess að hafa setið í stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, meðal annars sem formaður deildarinnar. Þá sat hún um tíma í stjórn Lsj. Stapa fyrir hönd sjóðfélaga í Þingeyjarsýslum. Hún hefur auk þess ávallt verið reiðubúin að taka þátt í fundum, ráðstefnum og þingum sem henni hefur staðið til boða að sækja á hverjum tíma. Hlutverk Jónínu hjá stéttarfélögunum hefur verið að sjá sérstaklega um skráningu iðgjalda, innheimtu og umsjón með útgreiðslum úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem og fyrir önnur stéttarfélög sem eiga aðild að Skrifstofu stéttarfélaganna. Jónína hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt í þágu stéttarfélaganna frá árinu 1996 til dagsins í dag. Vonandi fá stéttarfélögin tækifæri til að njóta krafta þinna áfram næstu árin, í það minnsta til sjötugs.
Irmý Dómhildur Antonsdóttir
Dómhildur er einn af þeim félagsmönnum sem eftirsóknarvert er að starfa með, enda var snemma leitað til hennar um að taka að sér krefjandi störf fyrir stéttarfélögin. Vorið 1979 var hún kjörin formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur sem hún gegndi í nokkur ár. Síðan þá hefur hún verið viðloðandi starf stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fram til dagsins í dag, en hún sat sinn síðasta stjórnarfund í Sjúkrasjóði Framsýnar í lok síðasta mánaðar þar sem hún hefur verið stjórnarmaður til margra ára. Hvað stjórn sjúkrasjóðsins varðar er á hverjum tíma afar mikilvægt að hafa traust og gott fólk í stjórninni enda þarf hún í hverjum mánuði að fjalla um mjög svo viðkvæm mál. Á síðasta ári var úthlutað tæplega 60 milljónum úr sjóðnum til 1.226 félagsmanna. Dómhildur hefur í gegnum tíðina tekið að sér að sitja í stjórn, varastjórn, trúnaðarráði auk þess að taka að sér önnur trúnaðarstörf fyrir félögin sem reglulega hafa skipt um nöfn vegna sameiningar stéttarfélaga á svæðinu. Dómhildur hefur gengt mismunandi störfum á vinnumarkaði á sínum langa starfsferli s.s. við skrifstofustörf, húsvörslu, fiskvinnslu, ræstingar og þá starfaði hún sem skólaliði í Borgarhólsskóla á Húsavík. Dómhildur hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt í þágu stéttarfélaganna frá fyrstu tíð.