Góður andi á aðalfundi STH sem fram fór í dag

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur var haldinn í dag. Fundarmenn voru ánægðir með öflugt starf félagsins á umliðnu starfsári. Ljóst er að samstarf félagsins við Þingiðn og Framsýn gerir það að verum að félagið getur haldið úti öflugu starfi þrátt fyrir að félagsmenn séu rúmlega hundrað. Þátttaka í sameiginlegum  rekstrarkostnaði við Skrifstofu stéttarfélaganna á síðasta ári var aðeins kr. 2.578.963. Hér má lesa skýrslu stjórnar:

 Fundir
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 6. september 2021. Frá þeim tíma hafa verið haldnir fjórir formlegir stjórnarfundir. Þá hafa stjórnarmenn tekið þátt í fundum og þingum á vegum BSRB.

Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Stafsmannafélagi Húsavíkur þann 31. desember 2021 voru 112, það er þeir sem greiddu til félagsins 2021. Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2022 skv. félagatali í DK voru 81. Félagsmönnum hefur fækkað aðeins milli ára. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2021 námu kr. 13.091.405,  en voru kr. 12.882.346 árið á undan.

Rekstrargjöld voru kr. 11.252.700 og lækkuðu því milli ára úr kr. 11.566.093.

Fjármunatekjur voru kr. 186.024 samanborið við kr. 192.125 árið á undan.

Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 4.559.429, samanborið við kr. 3.605.578 tekjuafgang frá fyrra ári.

Heildareignir í árslok voru kr. 75.678.889,- og eigið fé nam kr. 73.313.600 og hefur það aukist um 6,6% frá fyrra ári.

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.578.963.

Gerð verður frekari grein fyrir helstu niðurstöðum úr ársreikningi félagsins undir b-lið þessa liðar, Venjuleg aðalfundarstörf.

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands.

STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Komið er því að tak ákvörðun um hvort selja eigi íbúðina eða gera hana upp þar sem hún er komin á viðhald. Ákvörðun þess efnis þarf að taka fljótlega. Búið er að láta verðleggja íbúðina og þá hefur viðhaldsþörfin verið skoðuð lauslega. Auk íbúðarinnar í Sólheimum á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum.

Þá fengu 11 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 194.910,-.

 Fræðslumál og heilsurækt
Á síðasta ári voru greiddir 23 styrkir til félagsmanna úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 1.159.844,-. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 160.000,- í heilsustyrki frá félaginu.

Kjaramál
Lítið fór fyrir kjarasamningsgerð á síðasta starfsári enda kjarasamningar ekki lausir fyrr en á árinu 2023. Hins vegar hefur töluverður tími farið í aðstoð við félagsmenn vegna innleiðingar á vinnutímastyttingum og eftirfylgni með félagsmannasjóðnum Kötlu. Það er að tryggja að greiðslur úr sjóðnum skiluðu sér til félagsmanna.

STH hefur gengið frá því að BSRB  gæti hagsmuna félagsins gagnavart samninganefndum ríkis og sveitarfélaga þar sem búið er að leggja niður Samflotið sem var samstarfsvetvangur nokkurra starfsmannafélaga innan BSRB um kjaramál. Nokkur af þeim hafa nú sameinast Kili starfsmannafélagi og því er ekki lengur grundvöllur fyrir Samflotinu. Að sjálfsögðu verður stjórnin á kantinum og þátttakandi í kjarasamningsgerðinni fyrir hönd félagsmanna.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum enda heimsfaraldurinn ekki haft veruleg áhrif á starfsmenn sveitarfélaga og ríkisins.

Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2022 eftir tveggja ára hlé vegna Covid. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki. Athygli vakti að helmingi færri mættu á hátíðarhöldin í ár en undanfarin ár eða um 250 manns. Vissulega var hátíðinni streymt í fyrsta skiptið sem getur hafa haft áhrif á mætinguna sem og Covid. Í ljósi þessa er spurning hvort tímabært sé að endurskoða hátíðarhöldin, það er með hvaða hætti sé best að halda upp á baráttudag verkafólks á komandi árum.   Fulltrúráð stéttarfélaganna mun taka við boltanum og ákveða framhaldið varðandi hátíðarhöldin 1. maí.

Starfsemi félagsins
STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:

Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.

Ríkissáttasemjari stóð fyrir þriggja daga námsstefnu í samningagerð á Húsavík í nóvember 2021. Um fimmtíu manns tóku þátt í námstefnunni. Að beiðni Ríkissáttasemjara stóðu aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir móttöku fyrir hópinn sem tókst í alla staði mjög vel.

Til stóð að ráðast í endurskoðun á lögum félagsins en þar sem félagið hefur ekki starfað af fullum þunga á starfsárinu tókst ekki að hefja þá vinnu. Vonandi verður hægt að ráðast í þessa vinnu í vetur.

Samkomulag við Flugfélagið Erni
Stéttarfélögin eru með samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselja til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum.

Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan félögin hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með nýlega endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið tókst félögunum að tryggja félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2022. Verð til félagsmanna í dag er kr. 12.000,- per flugmiða/kóða.

Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir.

Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur annast þá þjónustu. Hann er ávallt reiðubúinn til að veita félagsmönnum nánari upplýsingar um starfsemina en markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu.

Skrifstofa stéttarfélaganna
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum.

Félögin halda úti öflugri heimasíðu og fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Hvað heimasíðuna varðar, þá var samið við hugbúnaðarfyrirtækið AP um að gera verulegar breytingar á síðunni og gera hana notendavænni fyrir félagsmenn í samráði við starfsmenn stéttarfélaganna. Samstarfið gekk afar vel og er afraksturinn eftir því.

Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar þrátt fyrir að það hafið dregið mikið úr þeim vegna Covid. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar.

Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

Frá og með áramótunum 2021/22 urðu breytingar á lögfræðiþjónustu við félagsmenn. Samið var við PACTA lögmenn á Akureyri mun að taka yfir gjaldþrotamálin sem Jón Þór Ólason lögmaður var með áður fyrir félögin. PACTA hefur fram að þessu séð um alla innheimtu á útistandandi skuldum fyrirtækja við stéttarfélögin, auk þess að sjá um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál. Glaldþrotamálin bættast nú við þessa þjónustu lögmannstofunnar.

Þá var jafnframt samið við Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum um að taka að sér þau mál er varða slysa- og vinnuréttarmál félagsmanna sem fara í gegnum STH. Eva Dís Pálmadóttir framkvæmdastjóri Sóknar verður jafnframt  aðallögmaður stéttarfélaganna.

Fulltrúaráð stéttarfélaganna
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna mynda með sér Fulltrúaráð sem skipað er formönnum þessara félaga. Fulltrúaráðinu er ætlað að fylgjast með sameiginlegri starfsemi félaganna, ekki síst sem viðkemur rekstri skrifstofunnar. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar eftir þörfum.

 Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Eftir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga voru eftirfarandi tillögur teknar fyrir og samþykktar samhljóða:

Tillaga 1: Löggiltur endurskoðandi félagsins
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2022.

Tillaga 2: Um félagsgjald
Tillaga stjórnar er að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum.

Tillaga 3: Ráðstöfun á tekjuafgangi
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 4: Laun stjórnar og varastjórnar
Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda.

Tillaga 5: Laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi
Tillaga er um að laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir per setinn fund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi.

Stjórnarkjör
Ganga þarf frá kjöri á gjaldkera og meðstjórnanda til tveggja ára samkvæmt lögum félagsins.

Stjórnarkjör og kjör í aðrar stjórnir og nefndir fyrir næsta starfsár:

Stjórn:
Fanney Hreinsdóttir gefur kost á sér sem gjaldkeri félagsins og Sylvía Ægisdóttir sem meðstjórnandi.

Tillaga um skoðunarmenn reikinga:
Tillaga er um að Ása Gísladóttir og Erla Bjarnadóttir verði félagslega kjörnir skoðunarmenn reikninga fyrir starfsárið 2022. Til vara verði Vilborg Sverrisdóttir.

Tillaga um orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd:
Tillaga er um að Sveinn Hreinsson, Arna Þórarinsdóttir og Guðrún Ósk Brynjarsdóttir verði í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd félagsins fyrir starfsárið 2022.

Tillaga um Ferðanefnd:
Tillaga er um að Fanney Hreinsdóttir, Arna Þórarinsdóttir og Eyrún Sveinsdóttir verði í Ferðanefnd félagsins fyrir starfsárið 2022.

 

 

 

 

 

Deila á