Að mati stjórnar Starfsmannafélags Húsavíkur sem fundaði nýlega um starfsemi félagsins mikið gæfuspor þegar félagið gekk frá samkomulagi á sínum tíma við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík um að halda utan um starfsemi félagsins með stjórn þess á hverjum tíma. Í upphafi voru það fimm stéttarfélög sem stóðu að rekstri skrifstofunnar, síðar komu tvö önnur stéttarfélög inn í samstarfið. Öll félögin sjö voru aðilar að ASÍ nema Starfsmannafélag Húsavíkur sem var innan BSRB. Athygli vakti að stéttarfélög innan ASÍ og BSRB hefðu náð að sameinast um sameiginlegt skrifstofuhald. Slík fyrirmynd var ekki til á þessum tíma.
Með tíð og tíma sameinuðust aðildarfélögin innan ASÍ undir merkjum Framsýnar stéttarfélags annars vegar og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hins vegar. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna í dag eru auk þessara tveggja félaga, Starfsmannafélag Húsavíkur.
Í gegnum tíðina hefur félagsmönnum, svo vitnað sé í kannanir, verið boðið upp á góða þjónustu með hæfu og reynslumiklu starfsfólki. Þá er Skrifstofa stéttarfélaganna opin alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00 eða lengur en flestar aðrar skrifstofur stéttarfélaga/starfsmannafélaga innan ASÍ/BSRB.
Eins og fram kemur hér að framan hefur verið mikil ánægja með samstarfið meðal félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur. Félögin hafa ekki bara sameinast í skrifstofuhaldi heldur jafnframt hvað varðar t.d. orlofsmál, fræðslumál og velferðarmál félagsmanna. Þá halda félögin úti sameiginlegri heimasíðu og Fréttabréfi svo eitthvað sem nefnt. Aðild félagsins að skrifstofunni hefur auk þess veitt félagsmönnum STH aðgengi að ódýrum flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur, hótelum víða um land og orlofsíbúðum á Akureyri, Kópavogi og Reykjavík, auk orlofsíbúðar á Spáni.
Þá hafa félögin í sameiningu komið að því að styrkja ýmis málefni í samfélaginu félagsmönnum til hagsbóta s.s. með þátttöku í kaupum á tækjum og tólum fyrir Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík og Hjúkrunarheimilið Hvamm. Svo ekki sé talað um aðra styrki til góðgerðamála og íþróttafélaga. Af hverju taldi stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur ástæðu til að funda um stöðu og framtíð félagsins? Undanfarið hefur félagið orðið fyrir þrýstingi frá BSRB og Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu um að sameinast öðrum starfsmannafélögum, starfsemin hefur jafnvel verið töluð niður. Eftir góðar umræður stjórnar var samþykkt að gera athugasemdir við þessi vinnubrögð og koma þeim á framfæri við rétta aðila. Það er alveg ljóst að Starfsmannafélag Húsavíkur leggur mikið upp úr góðu samstarfi við önnur starfsmannafélög innan BSRB sem og við bandalagið sjálft. Það er hins vegar í höndum félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur á hverjum tíma að ákveða hvaða leið skuli farin varðandi starfsemi og framtíð félagsins. Hvað það varðar, hefur stjórnin ákveðið að taka málið á dagskrá aðalfundar félagsins í vor, það er að ræða framtíð félagsins. Aðalfundurinn er jú æðsta valdið í félaginu. Vilji núverandi stjórnar er að halda í sjálfstæði félagsins enda mikil ánægja meðal félagsmanna með starfsemina.