Ætlar Fjármálaeftirlitið að afskrifa stjórnarmenn sjóðsfélaga innan ASÍ í stjórnum lífeyrissjóða

Framsýn stéttarfélag hefur með bréfi til Fjármálaeftirlitsins gert alvarlegar athugasemdir við mat á hæfi stjórnarmanna til að sitja í stjórnum lífeyrirssjóða, í bréfi til eftirlitsins kemur meðal annars fram:

Framsýn stéttarfélag Þingeyinga er aðili að Lsj. Stapa í gegnum kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Félagið telur um þrjú þúsund félagsmenn. Félagssvæðið nær yfir sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp og Tjörneshrepp, en landfræðilega nær félagssvæðið og þjónustusvæði þess yfir 18% af landinu.

Samkvæmt samþykktum Lsj. Stapa gr. 4.1. er kveðið á um:

„Stjórn sjóðsins skal skipuð átta einstaklingum. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af launamönnum og skal val þeirra staðfest af fulltrúum launamanna í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir stjórnarmenn skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og skal val þeirra staðfest af fulltrúum atvinnurekenda í fulltrúaráði sjóðsins. Fjórir varamenn skulu valdir með sama hætti, tveir frá launamönnum og tveir frá atvinnurekendum.“

Hvað þetta varðar hefur komið í hlut Framsýnar að tilnefna einn sjóðsfélaga í stjórn Lsj. Stapa til tveggja ára í senn. Leitast hefur verið við að fulltrúar stéttarfélaganna sem aðild eiga að sjóðnum komi sem víðast af starfssvæði sjóðsins sem er norður- og austurland og hafi auk þess góða þekkingu á viðfangsefninu. Síðan hefur það verið í höndum fulltrúaráðs Lsj. Stapa að staðfesta kjör fulltrúa sjóðsfélaga í stjórn á hverjum tíma. Hefur þessi regla gefist vel.

Nú er svo komið að mjög erfitt er orðið að fá sjóðsfélaga innan stéttarfélaga til að taka þátt í stjórnunarstörfum í Lsj. Stapa þar sem svo virðist vera sem Fjármálaeftirlitið sé sífellt að herða þær hæfniskröfur sem eftirlitið gerir til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, hugsanlega til að útiloka almenna sjóðsfélaga frá því að taka þátt í stjórnunarstörfum í lífeyrissjóðum.

Framsýn grunar að sú umræða sem fór af stað varðandi fjárfestingar lífeyrissjóða í ákveðnum fyrirtækjum s.s. Icelandair sé að koma í veg fyrir þátttöku almennra sjóðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóða. Sjóðsfélaga sem ekki eru skráðir með margar háskólaskráður heldur hafa víðtæka almenna þekkingu á starfsemi lífeyrissjóða. Sjóðsfélaga með sterka réttlætiskennd sem telja að auka eigi siðferði í fjárfestingum/ávöxtun lífeyrissjóða. Sumir innan verkalýðshreyfingarinnar eru á því að um menntahroka sé að ræða hjá Fjármálaeftirlitinu.

Vitað er að forystumenn Eflingar og VR hafa sérstaklega gagnrýnt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða í ákveðnum tilfellum sem ratað hafa í fjölmiðla og skapað m.a. umræðu um sjálfstæði stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða.

Er Fjármálaeftirlitið að bregðast við þessum athugasemdum með því að herða hæfisskilyrði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum?

Er unnið að því að koma fulltrúum stéttarfélaga innan ASÍ út úr stjórnum lífeyrissjóða?

Stundar Fjármálaeftirlitið „geðþóttastjórnsýslu“ með því að boða nánast alla stjórnarmenn sumra lífeyrissjóða í hæfnispróf meðan stjórnarmenn annarra sjóða eru ekki boðaðir í sambærilegt mat?

Hvernig leggur Fjármálaeftirlitið mat á það hvort stjórnarmenn gangist undir munnlegt hæfismat?

Miðað við þróun undanfarinna ára virðist einungis vera horft til háskólamenntunar þegar Fjármálaeftirlitið leggur mat á það hvort stjórnarmenn lífeyrissjóða skuli undirgangast munnlegt hæfismat. Hæfisskilyrði skv. lögum um lífeyrissjóði tiltaka hins vegar aðeins að stjórnarmenn skuli „búa yfir nægri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt“. Þar er hvergi vikið sérstaklega að menntun en framkvæmd eftirlitsins gefur til kynna að áratugareynsla af réttindamálum geti ekki talist sem tilhlýðileg þekking. Framsýn er með til skoðunar að vekja athygli Umboðsmanns Alþingis á framkvæmd eftirlitsins á hæfismati stjórnarmanna þar sem eftirlitið virðist aðeins horfa til þess að „þekking“ fáist með tiltekinni háskólamenntun. Sérstaklega gæti verið áhugavert að skoða hlutfall stjórnarmanna lífeyrissjóða sem boðaðir eru í munnlegt hæfismat eftir menntunarstigi, starfsreynslu og tilnefningaraðila.

Ekki er annað að sjá en að Fjármálaeftirlitið ætli sér að útiloka aðkomu almennra sjóðsfélaga innan stéttarfélaga að stjórnum lífeyrissjóða. Krafan um að sjóðsfélagar sjálfir velji stjórnir lífeyrissjóða á hverjum tíma á þá ekki við lengur. Í ljósi þess hefur Framsýn ákveðið að taka málið upp til umræðu innan hreyfingarinnar auk þess sem félagið hefur skrifað Fjármálaeftirlitinu bréf og kallað eftir upplýsingum frá eftirlitinu sem endurspeglast í þeim spurningum sem getið er um hér að framan.

Sé það mat Fjármálaeftirlitsins að menn þurfi að hafa tiltekna menntun til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs ætti eftirlitið að gefa það út. Það er að stjórnarmenn séu langskólagengnir með sérþekkingu á fjármálum og regluverki lífeyrissjóða. Reyndar er vert að minnast þess að í efnahagshruninu haustið 2008 þegar hópur manna innan fjármálageirans var dæmdur í fangelsi fyrir efnahagsbrot sem eiga sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni, var það ekki vegna skorts á háskólagráðum í fjármálastjórnun.  Framsýn minnist þess ekki að hafa heyrt talað um að verkafólk með litla formlega menntun hafi verið í þeim vafasama flokki, fólk sem hefur m.a. tekið þátt í stjórnum lífeyrissjóða fyrir verkalýðshreyfinguna. Þetta er að mati Framsýnar fólkið sem á heima í stjórnum lífeyrissjóða, fólk sem kann að fara með peninga og er umhugað um mikilvægi lífeyrissjóða fyrir sjóðsfélaga. Það er greinilega ekki mat Fjármálaeftirlitsins, þar gilda prófgráðurnar við mat á hæfni stjórnarmanna.

Deila á