Viðræður ganga vel um bónus og hæfniálag hjá starfsmönnum PCC

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu fyrir helgina með fulltrúum PCC um bónuskerfi sem verið hefur verið í þróun og hæfniálag. Fundurinn fór fram í fundarsal stéttarfélaganna og í gegnum zoom þar sem einn úr samninganefnd PCC var erlendis. Núverandi bónuskerfi hefur verið að gefa starfsmönnum um 8% launahækkun. Áætlað er að nýja bónuskerfið sem er í þróun geti gefið starfsmönnum um 15 til 30% launahækkun. Gangi það eftir er um verulega hækkun að ræða fyrir starfsmenn. Til viðbótar má geta þess að grunnlaun starfsmanna byggja á tveimur þáttum, starfsaldri og hæfni. Hvað hæfnina varðar var ætlunin að þróun í starfi gæti gefið starfsmönnum allt að 5% launahækkun. Markmið kerfisins er að hvetja starfsfólk og stjórnendur til að setja þjálfun og starfsþróun í öndvegi og vinna gegn stöðnun og einhæfni. Í viðræðum aðila síðustu daga hefur komið fram að PCC sé tilbúið að endurskoða hækkanir vegna hæfniálagsins, það er að hækkunin fyrir hæfniálag 1 og 2 geti gefið allt að 15% launahækkun. Rétt er að taka fram að þessar breytingar eru á viðræðustigi en aðilar stefna að því að klára þessa vinnu fyrir vikulok. Þá verður frekar hægt að gera grein fyrir niðurstöðunni en viðræðurnar lofa góðu fyrir starfsmenn PCC.

Rekstur PCC á Bakka hefur gengið vel undanfarið, starfsmenn eru farnir að finna vel fyrir því enda fer afkoma fyrirtækisins og launakjör starfsmanna saman samkvæmt nýju bónuskerfi sem verið hefur í þróun undanfarið. Reiknað er með að PCC og stéttarfélögin skrifi undir nýtt bónuskerfi í vikunni.
Deila á