Öngþveiti við Húsavíkurhöfn í morgun

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeim miklu umsvifum sem tengjast starfsemi PCC á Bakka við Húsavík. Þar starfa um 130 til 150 manns að staðaldri og þá eru launakjör starfsmanna almennt betri en gerast á svæðinu. Fjöldi undirverktaka koma að því að þjónusta fyrirtækið sem og aðrir þjónustuaðilar sem reiða sig á þjónustu við fyrirtækið og starfsmenn þess. Fyrirtækið er því að skila miklum sköttum í gegnum aðstöðugjöld, almenna skatta og útsvarsgjöld starfsmanna. Ekki má heldur gleyma skipa umferðinni um höfnina með tilheyrandi tekjum fyrir Norðurþing í formi hafnargjalda. Sem dæmi má nefna að í morgun var eitt skip í höfninni sem var verið að landa úr meðan tvö önnur biðu eftir því að komast að bryggju með hráefni fyrir verksmiðjuna á Bakka. Já, verksmiðjan á Bakka skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið allt en framleiðslan hefur gengið afar vel undanfarna mánuði með tilheyrandi gjaldeyrissköpun sem okkur veitir ekki af um þessar mundir. Þrátt fyrir að það sé dimmt úti um þessar mundir er bjart yfir Húsavík.   

Deila á