Fulltrúar frá Flugfélaginu Erni og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum funduðu í síðustu viku. Tilgangur fundarins var að endurnýja samning aðila um flugfargjöld milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Viðræðurnar gengu vel enda hafa aðilar átt mjög gott samstarf á þessum vetfangi. Ákveðið var að framlengja samninginn með kaupum stéttarfélaganna á þúsund flugmiðum. Samningnum fylgir smá hækkun á flugfargjöldum sem hafa reyndar ekki hækkað í nokkur ár en flugfélagið þarf nú að bregðast við hækkun eldsneytisverðs, launahækkana og annarra verðhækkana sem tengjast flugstarfsemi. Samkvæmt samningnum verður verðið kr. 12.000,- per flugmiða frá 1. janúar 2022. Það er, stéttarfélögin munu áfram selja miðann á því verði sem samið er um milli flugfélagsins og stéttarfélaganna. Ásgeir Örn Þorsteinsson sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins og Aðalsteinn Árni frá stéttarfélögunum handsöluðu samninginn sem þeir telja hagkvæman fyrir báða aðila. Aðilar munu halda áfram samstarfi um að efla flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur enda afar mikilvægt að fólki sé gefin kostur á að fljúga milli þessara landshluta.