Á síðasta aðalfundi Framsýnar var samþykkt að færa björgunarsveitum á félagssvæðinu tæpar tvær milljónir í heildina að gjöf fyrir þeirra framlag til samfélagsins sem er ómetanlegt. Nú þegar hefur björgunarsveitunum Þingey og Pólstjörnunni á Raufarhöfn verið færðar gjafir. Í hádeginu í dag var komið að því að afhenda Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík gjöf kr. 250.000,-. Það voru þeir Birgir Mikaelsson og Júlíus Stefánsson frá Garðari sem tóku á móti gjöfinni. Þeir sögðu hana koma að góðum notum, nú þegar unnið væri að því að koma upp nýrri búningsaðstöðu fyrir konur í björgunarsveitarhúsinu. Konur hefðu í auknum mæli gengið í sveitina sem væri afar gleðilegt. Þá væri alltaf pláss fyrir fleiri konur og karla í sveitinni enda starfið öflugt um þessar mundir. Stór þáttur í starfi björgunarsveita er að safna fjármagni til rekstrar sveitanna. Hvað það varðar kom fram hjá þeim Birgi og Júlíusi að nú væri unnið að því að koma upp tveimur öflugum dósagámum á Húsavík enda dósasöfnun mikilvæg tekjulind fyrir sveitina. Þeir sögðust vonast til að bæjarbúar tækju góðu aðgengi að gámunum vel með því að leggja sveitinni til dósir til starfseminnar sem hér með er komið á framfæri. Biggi og Júlli voru ánægðir með sig þegar þeir yfirgáfu skrifstofuna með gjöfina frá Framsýn í farteskinu.