Sorry félagar við Eyjafjörð

Að gefnu tilefni vegna fréttar í Vikublaðinu í gær varðandi samstarf Einingar-Iðju og Félags verslunar- og skrifstofufólks um flutning réttinda félagsmanna þessara tveggja félaga milli félaganna er rétt að taka skýrt fram:

Í fréttinni kemur fram að stéttarfélögin við Eyjafjörð hafi gert með sér samstarfssamning um nýtingu réttinda fari félagsmenn þessara tveggja félaga milli félaganna. Um er að ræða samkomulag til eins árs sem verði þá endurskoðað í ljósi reynslunnar. Ekki sé betur vitað en að þessi tvö stéttarfélög séu fyrst aðildarfélaga innan ASÍ til að gera samning af þessu tagi. Með honum sé stórt skref stigið í að tryggja að réttindi fólks detti ekki niður færi það sig milli félaga. Það er full ástæða til að hrósa stéttarfélögunum við Eyjafjörð fyrir þessa ákvörðun þar sem vinnandi fólk sem færir sig milli félaga tapar oftast sínum réttindum við millifærsluna. Reglur ASÍ taka á þessu að hluta enda færist félagsmenn til innan aðildarfélaga sambandsins. Eftir að viðkomandi aðili hefur greitt til nýja félagsins í mánuð eftir að hann hætti að greiða í fyrra félagið innan ASÍ flytur hann sín grunnréttindi yfir í nýja félagið samkvæmt þeim reglum sem gilda hjá því stéttarfélagi sem gengið er í.

Framsýn stéttarfélag og Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, sem reka saman skrifstofu á Húsavík, gengu frá samkomulagi um flutning réttinda milli félaga fyrir svo mörgum árum að elstu menn er löngu búnir að gleyma því hvaða ár það var. Þó er vitað að það var nokkuð snemma á síðustu öld. Samkomulagið byggir á því að félagsmenn þessara tveggja félaga fá réttindi sín að fullu metin strax við flutning fari þeir milli þessara tveggja stéttarfélaga sem bæði eru innan Alþýðusambands Íslands. Það að önnur stéttarfélög á Norðurlandi ætli sér að feta í fótspor stéttarfélaganna við Skjálfanda er að sjálfsögðu mikið gleðiefni sem ber að fagna. Jafnvel er ástæða til að skjóta upp flugeldum ef það er ekki bannað.

Deila á