Ásrún ráðin áfram hjá Vinnumálastofnun

Fyrir rúmlega ári síðan var Ásrún Ásmundsdóttir ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun með starfstöð á Húsavík. Áður hafði Framsýn lagt mikla áherslu á að Vinnumálastofnun kæmi sér upp starfsstöð á Húsavík í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og vaxandi atvinnuleysis á félagssvæði Framsýnar vegna lokunar PCC og samdráttar í atvinnulífinu, ekki síst í ferðaþjónustu. Ráðning Ásrúnar var til eins árs sem síðan var framlengd fram að næstu áramótum. Vinnumálastofnun hefur nú ákveðið að bjóða henni áframhaldandi ráðningu. Ásrún verður áfram með aðstöðu á Skrifstofu stéttarfélaganna þá daga sem hún verður á Húsavík við störf, það er frá áramótum sem ráðgjafi hjá stofnuninni.  Við það breytist hennar starf og opnunartími skrifstofunnar á Húsavík. Framvegis verður opið á Húsavík frá kl. 09:00-13:00 á mánudögum og á föstudögum frá kl. 09:00-12:00. Aðra daga verður hún við störf á skrifstofu Vinnumálastofnunnar á Akureyri. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að fastráða Ásrúnu.

Deila á