Kalla eftir endanlegum svörum

Eins og fram hefur komið hefur Framsýn átt í viðræðum við Húsasmiðjuna um ákvörðun fyrirtækisins um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og íbúa í nærliggjandi sveitarfélögum með lokunina. Forsvarsmenn Framsýnar hafa komið þessum skilaboðum vel á framfæri við stjórnendur Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins á Húsavík sem horfa fram á atvinnumissi um áramótin. Framsýn hefur formlega skorað á Húsasmiðjuna að endurskoðaða fyrri ákvörðun um að loka versluninni um næstu áramót. Slík orðsending fór frá félaginu í síðustu viku. Beðið er eftir endanlegu svari. Húsasmiðjan hefur vissulega gefið út í fjölmiðlum að verslun fyrirtækisins á Húsavík verði lokað um næstu áramót en hugsanlega verði sölumaður áfram á þeirra vegum með aðstöðu á Húsavík. Reyndar er óljóst hvaða form verður á þeirri þjónustu verði hún að veruleika. Slík þjónusta kemur ekki í staðinn fyrir verslun á svæðinu.

Miðað við alla þá uppbyggingu sem er í gangi og framundan er í Þingeyjarsýslum verður ekki séð hvernig menn ætla að framkvæma hlutina verandi ekki með byggingavöruverslun á svæðinu, það er á einu heitasta svæði landsins fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Fram að þessu hefur verið góður grundvöllur fyrir því að reka byggingavöruverslun á Húsavík.

Á undanförum árum hefur verið töluverð þensla í Þingeyjarsýslum. Í því sambandi má nefna byggingu PCC á Bakka, jarðgöng við Húsavík, íbúðabyggingar á Húsavík, hótelbyggingar í Þingeyjarsýslum og byggingu orkuvers á vegum Landsvirkjunar á Þeistareykjum.

Frekari uppbygging í Öxarfirði er framundan upp á nokkra milljarða er tengist fiskeldi, bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík er að hefjast með 60 rýmum. Í viðmiðum er gert ráð fyrir að hámarki 65 fermetra brúttórými fyrir hvert hjúkrunarrými. Heildarstærð 60 rýma hjúkrunarheimilis verður því að hámarki 3 900 m2 auk viðbótarrýma sveitarfélagsins.

Grænir iðngarðar á Bakka eru til skoðunar sem og bygging á Þaraverksmiðju sem er í burðarliðnum. Reyndar er um að ræða sögulegar framkvæmdir enda verði þær að veruleika en þeim er ætlað að veita hundruðum starfsmanna atvinnu. Gangi þessar framkvæmdir eftir verður mikil þörf fyrir alls konar nýbyggingar s.s. íbúðarhúsnæði á komandi árum.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ekki annað að sjá en að umtalsverðar framkvæmdir séu framundan á svæðinu á næstu árum fyrir utan frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu þegar hún nær vopnum sínum eftir Covid sem kallar án efa á öfluga byggingavöruverslun í héraðinu. Þá má ekki gleyma endalausri framkvæmdagleði íbúa á svæðinu sem fram að þessu hafa verið fastir viðskiptavinir Húsasmiðjunnar á Húsavík.

Verktakar hafa kallað eftir því að Framsýn boði til fundar með verktökum á svæðinu til að ræða málin, það er hvernig best verði að bregðast við, hætti Húsasmiðjan alfarið rekstri á Húsavík um áramótin. Slíkur fundur er í skoðun. Þá hefur fjöldi fólks á svæðinu einnig hvatt félagið til að berjast fyrir því að hér verði áfram rekin byggingavöruverslun. Eftir þeirri áætlun er unnið þessa dagana og vikurnar.

Deila á