Okkar fólk með miðið í lagi

Rosa Millán Roldán sem kemur frá Spáni starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Hún ásamt  Kristjáni Arnarsyni, fengu boð í byrjun september um að koma og taka þátt í úrtökumóti í riffilskotfimi með 22LR riffli í Lissabon í Portúgal. Keppt var um þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fer fram 2022. 

Þeim Rosu og Kristjáni var boðið í ljósi árangurs þeirra í mótum á Íslandi en þau hafa unnið til verðlauna í yfir 30 skipti á árinu 2021 í ýmsum riffilgreinum. Rosa og Kristján eru í tveimur efstu sætunum hér heima í þessari grein í tveimur flokkum og Íslandsmeistarar í greininni 2021. 

Á mótinu í Portúgal var verið að keppa um rétt til þátttöku í heimsmeistaramótinu sem fer fram í Frakklandi í september 2022. 

Rosa og Kristján þáðu boðið og skelltu sér til Barcelona þann 24. september og keyrðu þaðan  þvert yfir Spán og yfir til Lissabon. Þegar þangað var komið voru nokkrar æfingar teknar á skotvellinum með skyttum frá öðrum löndum. Mótið hófst síðan 26. september. Meðal þátttakanda var m.a. ríkjandi heimsmeistari í greininni Pedro Serralheiro ásamt öllum öðrum toppskyttum Portúgals.

Bæði Rosa og Kristján stóðu sig afar vel á mótinu og gáfu öðrum skyttum á mótinu ekkert eftir. Í stuttu samtali við heimasíðuna sögðust þau hiklaust geta borið sig saman við keppendur frá öðrum þjóðum í þessari grein og því geta borið höfuðið hátt. Þau hafa nú þegar skráð sig  á heimsmeistaramótið í Frakklandi 2022 og hafið undirbúning fyrir World Cup í Tékklandi 2023.

Samstarfsfólk Rosu á Skrifstofu stéttarfélaganna óska henni og Kristjáni til hamingju með árangurinn.

Deila á