Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands skrifaði grein inn á heimasíðu sambandsins er varðar mikilvægi starfsmanna á skrifstofum stéttarfélaga. Ekki er ólíklegt að skrifin séu tilkomin vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um starfsmenn Eflingar. Því miður hafa fyrrverandi stjórnendur félagsins talið ástæðu til að ráðast ansi harkalega að starfsheiðri starfsmanna. Hér má lesa greinina eftir Flosa Eiríksson:
Hugsjónafólk í starfi
Undanfarin tæplega 3 ár hef ég verið svo gæfusamur að starfa hjá Starfsgreinasambandinu. Á þeim tíma hefur verið gengið frá aðalkjarasamningi á almennum vinnumarkaði, kjarasamning við Ríkið og samtök sveitarfélaga og sérkjarasamningum. SGS hefur einnig haldið þing sitt á þessum árum, fræðsludaga starfsfólks og fleira svo fátt eitt sé nefnt af verkefnunum.
Í þessu starfi hef ég átt mikil samskipti og samstarf við starfsfólk aðildarfélaga SGS um land allt, en hjá félögunum 19 starfa að jafnaði 80 til 100 manns ef allt er talið. Mín reynsla af þessu fólki er að það brennur fyrir starfi sínu og baráttumálum hreyfingarinnar. Þetta fólk er í daglegum samskiptum við félagsmenn, hvort það er á skrifstofum félagsins, í eftirlitsferðum á vinnustöðum eða bara í sundi, hvert í sinni heimabyggð. Þau leggja sig fram um að aðstoða og liðsinna okkar félagsmönnum, hjálpa þeim að sækja rétt sinn og verja kjör þeirra og aðbúnað.
Verkalýðshreyfingin á Íslandi er stórt og kraftmikið afl sem starfar í þágu launafólks. Það er auðvelt að missa sjónar á því, en hreyfingin varð það alls ekki sjálfkrafa. Um það ber rúmlega aldargömul saga um átök og baráttu ríkulegt vitni. Það er gott og heilbrigt að það sé í gangi lífleg umræða um starfið í verkalýðshreyfingunni, stefnu hennar og starfshætti. Hún er lifandi hreyfing sem á að vera óhrædd við að ræða leiðir til að efla og bæta lífskjör í landinu. Um það eiga forystu- og félagsmenn að takast á um á félagslegum vettvangi.
Starfsfólk hreyfingarinnar um land allt, hvort sem það er hjá aðildarfélögum SGS eða öðrum stéttarfélögum eiga ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum, nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf.
Skrifstofur aðildarfélaga SGS eru mannaðar af fólki sem leggur sig fram um að þjónusta sína félagsmenn af kostgæfni og gæta þeirra réttinda, alla daga, allt árið um kring. Sú þjónusta er eitt þeim hlutverkum sem félagsmenn kunna best að meta og sækja mikið í. Við eigum að tala þessa þjónustu upp, vekja á henni athygli og hvetja fólk til að sækja það sem þau þurfa til sinna félaga og taka þátt í starfi þeirra.
Flosi Eiríksson