Áhugavert námskeið í boði

Þú hefur áhrif hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eður ei – og það oft jafnvel þó svo að þú ætlir þér það ekki. GLS er heimsklassa ráðstefna þar sem frábært tækifæri gefst til þess að fá aðgang að ríkulegu innsæi frá heimsklassa fyrirlesurum sem allir eiga það sameiginlegt að vera reiðubúnir til þess að byggja þig upp og hvetja þig áfram í leiðangri þínum að betri forystu – hvar sem þú hefur áhrif.

Þessari alþjóðlegu ráðstefnu, GLS, verður streymt með íslenskum texta föstudaginn 5. nóvember og allt sem þarf til að tengjast er sími eða tölva. Þau sem hafa tök á því geta líka mætt í sal Framsýnar/stéttarfélaganna við Garðarsbraut 26 á Húsavík og notið ráðstefnunnar með öðrum á stórum skjá með ilmandi kaffi við höndina í félagsskap annarra. – Það næsta sem hægt er að komast því að vera staddur á stórri heimsráðstefnu á faraldstímum.

Skráning á GLS ráðstefnuna fer fram á gls.is en meðlimir í Framsýn geta komið með greiðslukvittun á skrifstofu félagsins og sótt um allt að 90% endurgreiðslu ráðstefnugjalds. Á heimasíðu GLS á Íslandi má jafnframt finna frekari upplýsingar um dagskrá, fyrirlesarana og efni fyrirlestra þeirra. Af innslögum frá gestum af fyrri GLS ráðstefnum á Íslandi að dæma má gera ráð fyrir að efni og innihald hafi umtalsverð jákvæð áhrif. Þetta er því tækifæri sem enginn ætti að láta framhjá sér fara enda hver er ekki í þörf fyrir hvatningu og innblástur, fyrir ferskar hugmyndir og uppörvun.

Deila á