Hvetja til aðhalds í gjaldskrárhækkunum

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skorar á ríki, sveitarfélög og aðra þjónustuaðila að gæta aðhalds í gjaldskrárhækkunum og hækkunum á vöru og þjónustu. Þessi skilaboð koma fram í ályktun frá félaginu sem samþykkt var á fundi í vikunni.

Ályktun
-Um almennar  gjaldskrárhækkanir-

„Framsýn stéttarfélag hvetur til aðhalds á gjaldskrárhækkunum ríkis og sveitarfélaga, nú þegar flest sveitarfélögin eru að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Verðbólga fer nú vaxandi í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Sem dæmi mælist 4% verðbólga í Þýskalandi sem er sú hæsta í landinu eftir upptöku Evrunnar. Ástæðan er ekki síst hærra orkuverð og þá er útlit fyrir að truflanir á aðfangakeðjum og aðrar afleiðingar heimsfaraldursins muni  hafa  frekari áhrif á verðbólguna á næstu misserum.

Alþjóðlega hefur matvara og iðnaðarvara hækkað verulega í verði sem og aðrir þættir sem hafa áhrif á afkomu heimila í viðkomandi löndum. Þessi þróun erlendis mun hafa áhrif á Íslandi.

Það er því verulegt áhyggjuefni ef ríki og sveitarfélög ýta frekar undir verðbólgu með gjaldskrárbreytingum og hækkun á opinberri þjónustu á sama tíma og vextir hafa farið hækkandi á Íslandi.

Vöruverð, verðbólga og vaxtahækkanir geta haft afdrifaríkar afleiðingar á kjör almennings og gert það að verkum að komandi launahækkanir um áramótin haldi ekki í við kaupmátt launa.

Við það verður ekki unað og standa því spjótin á  stjórnvöldum og sveitarfélögum að draga úr áhrifum á almenning. Þá er ekki í boði að þjónustuaðilar og verslunareigendur standi hjá og axli ekki ábyrgð er kemur að hækkunum á vöru og þjónustugjöldum. Það verða allir að spila með eigi að vera hægt að halda verðbólgunni í lágmarki og tryggja kaupmátt launa.

Framsýn kallar eftir þjóðarátaki gegn verðbólgu, öllum til hagsbóta“

Deila á