Það borgar sig að vera í öflugu stéttarfélagi

Mikill metnaður er innan Framsýnar að gera vel við félagsmenn og veita þeim góða almenna þjónustu. Ekki síst aðhald í rekstri gerir það að verkum að Framsýn gerir almennt betur við sína félagsmenn en önnur sambærileg stéttarfélög gera á landsvísu. Sem dæmi má nefna að félagið greiðir félagsmönnum kr. 100.000,- auka námsstyrki fari þeir í nám eða sæki námskeið sem tengist þeirra störfum á vinnumarkaði. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga geta félagsmenn stéttarfélaga innan SGS fengið allt að kr. 390.000,- í námsstyrki. Það sama á við um félagsmenn Framsýnar enda innan SGS (Starfsgreinasamband Íslands) sem til viðbótar eiga rétt á viðbótarstyrk frá félaginu kr. 100.000,-. Að sjálfsögðu eru félagsmenn Framsýnar ánægðir með þennan rétt sem hefur komið þeim að góðum notum í kostnaðarsömu námi.

Á dögunum kom félagsmaður í heimsókn á skrifstofu Framsýnar til að þakka fyrir styrk sem þau hjónin höfðu fengið vegna tæknifrjóvgunar. Þau sögðu hann mun hærri en hjá öðrum almennum stéttarfélögum og fyrir það bæri að þakka enda afar kostnaðarsamt að fari í tæknifrjóvgun. Þau hefðu komist að þessu eftir samræður við fólk í öðrum félögum sem væru í sömu erindagjörðum og þau að vilja eignast börn með aðkomu heilbrigðisstétta. Eðlilega veltur verkafólk því fyrir sér hvaða styrkir eru í boði hjá þeim stéttarfélögum sem þau greiða til víða um land. Þar skorar Framsýn mjög hátt og því er mikil ásókn í félagið.

Heimasíðan tók sig til og skoðaði hvað önnur stéttarfélög innan SGS væru að gera varðandi stuðning við félagsmenn sem fara í glasa-, tæknifrjóvgun eða ættleiða börn.  Hér koma dæmi um þrjú stéttarfélög sem öll eru fjölmennari en Framsýn í samanburði við félagið. Samanburðurinn er því mjög góður.

Upplýsingarnar eru teknar af heimasíðum félaganna, stéttarfélögin eru ekki nafngreind en fá nöfnin Stéttarfélag 1-2-3, fyrir utan Framsýn:

Framsýn stéttarfélag:
Styrkur vegna glasa-, tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar greiðist samkvæmt reikningi að hámarki kr. 150.000, fyrir tvö skipti. Eigi báðir foreldrar rétt samkvæmt þessari grein greiðast tveir styrkir, í heildina allt að kr. 600.000,-.

Stéttarfélag 1:
Styrkur vegna glasa-, tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar greiðist samkvæmt reikningi að hámarki kr. 100.000, þó aðeins í eitt sinn. Eigi báðir foreldrar rétt samkvæmt þessari grein greiðast tveir styrkir.

Stéttarfélag 2:
Glasa-, tæknifrjóvgun. Styrkur er veittur tvisvar. Greitt er allt að kr. 100.000,- í fyrsta skipti og kr. 50.000 í síðara skiptið en þó að hámarki 50% af kostnaði.

Stéttarfélag 3:
Glasa-, tæknifrjóvgun. Kr. 60.000, þó aldrei hærra en 50% af reikningi, á þriggja ára fresti.

Deila á