Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags, miðvikudaginn 9. júní 2021

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags, verður haldinn miðvikudaginn 9. júní 2021. Fundurinn verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna  að Garðarsbraut 26 og hefst kl. 20:00. Fundurinn er opin fullgildum félagsmönnum.

Dagskrá:

1.   Venjuleg aðalfundarstörf

a) Félagaskrá

b) Skýrsla stjórnar

c) Ársreikningar

d) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga

e) Kjör í stjórnir, nefndir og ráð

f) Kosning löggilts endurskoðana/endurskoðunarskrifstofu

g) Lagabreytingar

h) Ákvörðun árgjalda

i) Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

   

2. Önnur mál

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Tillögur sem liggja fyrir aðalfundinum:

Tillaga 1
Ráðstöfun á tekjuafgangi

Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

Tillaga 2
Löggiltur endurskoðandi félagsins

Lagt er til að endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. sjái um endurskoðun á bókhaldi félagsins fyrir starfsárið 2021.

Tillaga 3
Um árgjald

Tillaga er um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum félagsmanna.

Tillaga 4
Lágmarksfélagsgjald 2021

Til að öðlast full félagsréttindi þarf að greiða mánaðarlegt félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar á hverjum tíma, nú 1% af heildarlaunum.

Lágmarksfélagsgjaldið skal ekki vera lægra en sem svarar til 0,3% byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma.

Félagsgjaldið tekur breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta LÍV-SA. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði.

Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Tillaga 5
Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

Tillaga er um að laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs og stjórna deilda innan félagsins verði óbreytt milli ára.

Laun stjórnar og annarra félagsmanna í trúnaðarstörfum fyrir félagið starfsárið 2020-21

  • Stjórn og varastjórn Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Formaður + varaformaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar

  • Trúnaðarráð Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

  • Stjórnir deilda Framsýnar, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Formaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar

  • Aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi fyrir Kjörstjórn, Kjörnefnd, Sjúkrasjóð, Vinnudeilusjóð, Orlofssjóð, Fræðslusjóð, Ungliðaráð, Siðanefnd, Laganefnd, 1. maí nefnd og skoðunarmenn reikninga:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks

Akstursgreiðslur:

Varðandi akstur á fundi á vegum félagsins eða aðildar samtaka sem félagsmenn eru sérstaklega boðaðir á greiðist  kílómetragjald Ferðakostnaðarnefndar ríkisins eins og það er á hverjum tíma. Félagsmenn sem þetta á við um, skulu leitast við að ferðast saman á fundi.

Tillaga 6
Framlag til björgunarsveita í Þingeyjarsýslum

Framsýn stéttarfélag gefi björgunarsveitum á félagssvæðinu 1,5 milljónir sem skiptist jafnt milli starfandi sveita á svæðinu. Björgunarsveitir í Þingeyjarsýslum gegna veigamiklu hlutverki við björgun og aðra aðstoð við íbúa og aðra vegfarendur sem og sjófarendur. Að mati Framsýnar er starfsemi björgunarsveita ómetanleg fyrir samfélagið sem ber að þakka fyrir.

Tillaga 7
Ritun á sögu félagsins

Aðalfundurinn felur stjórn félagsins að gera kostnaðaráætlun um ritun á sögu félagsins frá árinu 1986 til 2021. Fyrir liggur skráning á sögu verkalýðshreyfingar í Þingeyjarsýslum frá árinu 1885 til 1985. Kostnaðaráætlunin skal lögð fyrir stjórn og trúnaðarráð til afgreiðslu. Ekki skal ráðist í skráningu á sögu félagsins nema tillaga þess efnis hafi verið formlega tekin fyrir og samþykkt á löglega boðuðum félagsfundi eða á aðalfundi í félaginu.  

Lagabreytingar:

Laganefnd Framsýnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á félagslögum í takt við nútímann og breytingar á starfsemi stéttarfélaga. Félagsmenn geta nálgast breytingarnar á skrifstofu félagsins að Garðarsbraut 26 á Húsavík.

Deila á