Ný og betri verslun

Miklar breytingar hafa orðið á verslun og þjónustu á undanförnum árum, það er, verslunum og þjónustuaðilum í hinum dreifðu byggðum hefur fækkað verulega. Á móti hefur verslunarstarfsemi í stærri byggðakjörnum s.s. á Akureyri og í Reykjavík verið að eflast. Til viðbótar má geta þess að almenn verslun hefur í auknum mæli verið að færast yfir á netið.

Þrátt fyrir þessa þróun er ánægjulegt að vita af þeim mikla metnaði sem er hjá verslunareigendum á Húsavík að svara samkeppninni með því að spýta í lófana. Sem dæmi má nefna verslunina Garðarshólma á Húsavík en eigendur búðarinnar réðust í miklar breytingar í vetur á búðinni og er hún nú orðin öll hin glæsilegasta. Við litum við í Garðarshólma á dögunum. Birgitta Bjarney Svavarsdóttir tók vel á móti formanni Framsýnar og sagðist ánægð með breytingarnar og viðtökurnar sem hefðu verið með miklum ágætum. Við skorum á fólk að líta við hjá Birgittu og skoða vöruúrvalið  enda tekur hún vel á móti öllum sem leggja leið sína í Garðarshólma, það er með bros á vör.

Í Garðarshólma er gott vöruúrval og hægt að gera góð kaup.

Deila á