Óvæntar uppákomur geta verið bráðskemmtilegar og komið fólki í opna skjöldu. Slíkt gerðist á fundi stjórnar, trúnaðarráðs og Framsýnar – ung sem haldinn var nú í vikunni, en nokkuð er um liðið síðan allur hópurinn hefur komið saman á hefðbundnum snertifundi.
Mæting á fundinn var mjög góð. Var ástæða þess ekki eingöngu bundin samviskusemi fundargesta og eldheitum áhuga þeirra á verkalýðsmálum, heldur voru þeir sérstaklega spenntir yfir máli sem afgreiða átti áður en formleg dagskrá fundarins hæfist. Var það sérstaka mál boðað var til allra nema formanns félagsins, en ástæða þessa laumugangs var sú að undir lok síðasta árs fagnaði Aðalsteinn Árni 60. ára afmæli og félagar hans í stjórn, trúnaðarráði og Framsýn – ung vildu gleðja hann sérstaklega í tilefni tímamótanna.
Þegar formaður Framsýnar mætti til fundarins brá honum við, því hans biðu veitingar sem galdraðar höfðu verið fram af félögum hans. Honum var afhentur krans hnýttur úr jurtum úr þingeyskum lyngmóum, ásamt annarri mjög persónulegri gjöf. Höfðu félagar Aðalsteins Árna í stjórn, trúnaðarráði og Framsýn – ung farið í stúdíó Borgars frá Brúum og tekið upp myndband þar sem þau sungu fyrir formann sinn og hvöttu hann til þess að fara í frí. Gjöfinni fylgdu nokkur orð frá varaformanni Framsýnar Ósk Helgadóttur þar sem hún sagði m.a: „ Við gefum þér gjöf sem erfitt er að meta til fjár, gefa þér eitthvað sem er persónulegt og lifandi, einhverja ögn af okkur sjálfum og gjöfin okkar verður ævinlega tengd þessum ágæta hópi. Þetta erum við, við erum misjafnlega lagvillt en öll að góðum vilja gerð til að gleðja þig… og hvað sem þér finnst, þá situr þú upp með okkur eins og við erum. Gjöfin okkar er ekki með skiptimiða, en hún er svo margfalt meira virði en nokkur efnislegur auður. Þetta er okkar leið til að segja þér hversu mikils við metum þig, fyrir óeigingjörn störf þín í okkar þágu, fyrir fólkið í landinu, en fyrst of fremst metum við þig sem vin okkar og félaga. Við höfum gert okkar besta til að gera þér þennan áfanga eftirminnilegan og þegar menn gera eins og þeir geta, mega þeir gana stoltir frá verki“.
Það eru afar fá dæmi þess að formaður Framsýnar verði orðlaus og þekkjast varla nokkur slík en við þessa óvæntu og skemmtilegu uppákomu gerðist það þó og mun það verða fært í heimildir.
Meðfylgjandi eru myndir af stjórnar- og trúaðarráðsmönnum sem teknar voru þegar stúdíó Borgars á Brúum í Aðaldal.