Framsýn fordæmir árásir Ísraelsmanna

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana. Systursamtök ASÍ í Palestínu er PGFTU og góður félagi í þeim samtökum Dr. Ashraf Al-A’war var handtekinn af Ísraelsher þann 8. maí síðastliðinn, yfirheyrður um stéttafélagaþátttöku sína og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum eða verkalýðsmálum í einn mánuð. Þetta er dæmi um hið hversdagslega ofbeldi sem Palestínumenn mega sæta til viðbótar við hreinar loftárásir, landnám, aðskilnaðarstefnu, fangelsanir, morð og brottflutninga. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.  

Svo skrifar forseti ASÍ í vikulegum pistli inn á heimasíðu sambandsins í dag.  Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir þessi ummæli en formanni félagsins, Aðalsteini Árna, var boðið að kynna sér aðstæður í Palestínu fyrir tæpum tveimur árum. Honum var verulega brugðið yfir þeim mannréttindabrotum Ísarelsmanna sem líðast í skjóli alþjóðasamfélagsins, ekki síst Bandaríkjanna.  

Formaður Framsýnar segir að það hafi tekið verulega á að hlusta á talsmenn verkalýðsfélaganna í Palestínu tala um ofbeldið sem Ísraelsmenn beita Palestínumönnum daglega. Hann hefði ekki getað trúað því að slík mannvonska væri til, fréttir síðustu taka frá átakasvæðinu veki með honum mikinn hroll.   

Deila á