Góður gestur á fundi stjórnar Sjúkrasjóðs Framsýnar

Á föstudaginn kom stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar saman til fyrsta fundar eftir aðalfund félagsins. Stjórnina skipa Dómhildur Antonsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Aðalsteinn Árni Baldursson en formaður félagsins á hverjum tíma er sjálfkjörinn í stjórn sjúkrasjóðsins. Ingibjörg hefur ekki áður komið að störfum fyrir Framsýn en hún starfaði áður hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Í  dag er hún starfsmaður Þekkingarnets Þingeyinga, hún er boðin velkomin í stjórn sjúkrasjóðsins. Með þeim á myndinni er Jónína Hermannsdóttir starfsmaður stéttarfélaganna og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sem kom í opinbera heimsókn til Framsýnar á föstudaginn til að kynna sér starfsemina. Til fróðleiks má geta þess að Jónína og Aðalsteinn Leifsson eru þremenningar. Stjórn sjúkrasjóðsins kemur saman mánaðarlega til að úthluta sjúkradagpeningum og öðrum styrkjum til félagsmanna. Á síðasta ári úthlutaði stjórnin 77 milljónum til félagsmanna.

Ingibjörg var að taka þátt í sínum fyrsta fundi í stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar. Aðalsteinn og Dómhildur hafa setið í stjórn ásamt Einari Friðbergssyni sem gaf ekki kost á sér áfram þar sem hann hefur hætt störfum á vinnumarkaði.

Deila á