Framsýn kallar eftir auknu fjármagni til rekstrar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar sem haldinn var í síðustu viku urðu töluverðar umræður um starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.  Höfðu fundarmenn áhyggjur af skertum fjárveitingum rekstraraðila til miðstöðvarinnar sem væru ekki í takt við starfsemina.  Það er auknum umsvifum undanfarin ár hafi ekki fylgt aukið framlag frá eigendum stofnunarinnar. Komið var inn á að Verkalýðsfélag Húsavíkur, nú Framsýn stéttarfélag, hefði lagt fram framlag þegar Sjóminjasafninu var komið á fót. Því miður væri svo komið að hluti safngripa væri farinn að skemmast, hér er verið að vísa í útisvæðið við Sjóminjasafnið. Eftir umræður var samþykkt að koma ábendingum/athugasemdum Framsýnar á framfæri við stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.

 Þar kemur fram;

„Þingeyingar hafa í gegnum tíðina verið stoltir af starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og  því metnaðarfulla starfi sem einkennt hefur starfsemi stofnunarinnar um árabil.

Með þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu á 20. öld opnuðust augu fólks, jafnt Þingeyinga sem annara fyrir nauðsyn þess að varðveita það „sem áður var“. Síðan þá hafa stórkostlegar breytingar orðið á lifnaðarháttum þjóðarinnar. Má þar nefna að verkþekking hefur breyst, störf horfið, ný orðið til og allar samskiptaleiðir tekið stórkostlegum framförum. Fjórða iðnbyltingin er skollin á með ógnarhraða og því er ekki síður þörf á því í dag að halda vel utan um arfleið okkar. Það er engin þjóð án róta og saga forfeðranna hefur mótað  okkur rétt eins og landið sem við búum í. Okkar er að bera virðingu fyrir því liðna og það gerum við best með því að  halda skilmerkilega utan um menningararfinn, bæta í söguna og skila keflinu áfram til komandi kynslóða.

Í nýútkomnu fréttabréfi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, Safna, kemur fram að stofnunin samanstandi af Byggðasafni Norður-Þingeyinga, Byggðasafni Suður-Þingeyinga, Sjóminjasafninu, Héraðsskjalasafni Þingeyinga, Ljósmyndasafni Þingeyinga, Myndlistasafni Þingeyinga, Náttúrugripasafni Þingeyinga, bókasöfnunum í Norðurþingi sem hafa aðsetur á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn og útgáfu Árbókar Þingeyinga. Menningarmiðstöð Þingeyinga er með þjóðlífssýningar á Grenjaðarstað í Aðaldal, í Safnahúsinu á Húsavík, á Snartarstöðum við Kópasker og í Sauðaneshúsi á Langanesi.

 Það dylst engum við þennan lestur að starfsemin er gríðarlega umfangsmikil og hefur aukist allt frá stofnun Menningarmiðstöðvar Þingeyinga árið 2007. Markmið með stofnuninni var ekki síst að efla starfsemina og hagræða í rekstri með því að tengja söfnin betur saman undir einum hatti.

 Svo aftur sé vitnað í Safna, hefur auknum umsvifum Menningarmiðstöðvar Þingeyinga undanfarin ár ekki fylgt aukið framlag frá eigendum stofnunarinnar.

 Með bréfi þessu vill Framsýn stéttarfélag koma á framfæri áhyggjum af fjárhagslegri stöðu Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og takmörkuðum burðum stofnunarinnar til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað.  Í því sambandi má nefna útisvæðið við Sjóminjasafnið á Húsavík, þar sem finna má gamla húsvíska trébáta með mikla og langa útgerðarsögu. Bátarnir eru orðnir ónýtir, þar sem viðhaldi hefur ekki verið sinnt mörg undanfarin ár. Félaginu rennur blóðið til skyldunnar, en Verkalýðsfélag Húsavíkur ásamt fleiri aðilum, hvatti til þess á sínum tíma að Sjóminjasafni yrði komið á fót til að varðveita söguna. Félagið fylgdi því eftir með styrkveitingu þegar verkefnið varð að veruleika og kom einnig að því að styrkja kaup á tölvukerfi fyrir Sjóminjasafnið árið 2001 sem og á hljóðkerfi 2018 þegar félagið stóð fyrir viðburði í Sjóminjasafninu í tilefni af 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar.

Svo enn sé vitnað í Safna, kemur þar fram að rekstur Menningarmiðstöðvarinnar sé orðinn mjög þungur og faglegu starfi innan stofnunarinnar ábótavant. Ljóst sé að ef ekki náist samkomulag um verulega aukið fjármagn til rekstursins verði að endurskipuleggja starfsemina verulega og draga úr umfangi umsvifa næstu árin, sérstaklega í starfsemi Byggðasafnanna.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fjallaði um málið á fundi þriðjudaginn 18. ágúst, eftir ábendingar frá félagsmönnum sem hafa áhyggjur af stöðu mála.

Í kjölfarið var samþykkt að senda bréf á Héraðsnefnd Þingeyinga og koma ábendingum félagsins á framfæri við nefndina, það er mikilvægi þess að starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga verði tryggð með eðlilegum fjárframlögum til rekstrar og viðhalds safnanna.“

 

Deila á